Erlent

Minnst 22 látnir eftir skotárás á Kabúl-háskóla

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Á myndinni má sjá unga námskonu sem liggur á sjúkrahúsi í Kabúl eftir að hafa særst í árásinni sem gerð var á Kabúl-háskóla.
Á myndinni má sjá unga námskonu sem liggur á sjúkrahúsi í Kabúl eftir að hafa særst í árásinni sem gerð var á Kabúl-háskóla. EPA/JAWAD JALALI

Minnst 22 fórust og jafnmargir særðust þegar þrír vopnaðir menn réðust á Kabúl-háskóla í Afganistan í dag. Stjórnvöld í landinu segja að flestir þeirra sem urðu fyrir árásinni hafi verið námsmenn og að lögregla hafi skotið árásarmennina til bana á vettvangi.

Eftir að árásarmennirnir réðust til atlögu og urðu fjölda manns að bana hófst um klukkutíma langur bardagi milli árásarmanna og öryggissveitar.

Talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins segir að þrír árásarmenn hafi verið skotnir til bana. Árásin hófst skömmu áður en búist var við nokkrum opinberum embættismönnum sem hugðust sækja Íranska bókmenntaráðstefnu í háskólanum en árásin mun hafa staðið yfir í nokkrar klukkustundir.

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu í kjölfar árásarinnar. Talíbanar neituðu því að bera ábyrgð á árásinni og segjast harma atvikið. Nokkrum klukkustundum síðar sendu hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki frá sér skilaboð þar sem þau lýsa yfir ábyrgð á árásinni.

Samtökin hafa áður staðið að baki árásum sem gerðar hafa verið á afganskar menntastofnanir. Í síðasta mánuði létust 24 í árás sem gerð var við aðra menntastofnun í Kabúl og árið 2018 lýstu hryðjuverkasamtökin sig ábyrg fyrir árás sem framin var, þá einnig við Kabúl-háskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×