Enski boltinn

„Ekki jafn glæsilegur og Messi en hvað með það?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Nat Phillips fallast í faðma eftir leikinn í gær.
Klopp og Nat Phillips fallast í faðma eftir leikinn í gær. Peter Powell - Pool/Getty Images

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, grínaðist með frammistöðu miðvarðarins Nat Phillips í viðtali við BBC eftir 2-1 sigur Liverpool á West Ham á Anfield í gær.

Nat spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið LIverpool en hann kom inn í miðja vörn liðsins í fjarvergu Virgil van Dijk, Fabinho og Joel Matip. Stóð hann sig það vel að hann var kosinn maður leiksins á Sky Sports eftir leikinn.

„Hann er frábær gaur. Hann er vel gefinn, gáfaður, allt,“ sagði Klopp í samtali við BBC í leikslok. „Hann er ekki jafn glæsilegur og Messi með boltann en hvað með það? Í loftinu er hann skrímsli. Hann var magnaður.“

„Þetta var hans fyrsti leikur og ég held að allir geti ímyndað sér hversu stressaður hann var eftir langa bið. Þetta er ótrúleg saga. Fyrir þremur árum síðan var hann á leið til Bandaríkjanna í skóla.“

Það var áhugi á Phillips í sumar og einhverjar líkur voru á því að hann myndi yfirgefa Liverpool. Allt kom fyrir ekki og er hann nú bjargvætturinn í miðri vörn liðsins.

„Það voru tólf lið í ensku B-deildinni sem vildu fá hann og fyrir mig var það nokkuð klárt að hann væri að fara. Ég sætti mig við það en svo gekk það ekki upp. Það er frábært! Hann var flottur í kvöld og hjálpaði liðinu mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×