Erlent

Íslendingur á flótta dæmdur fyrir barnaníð handtekinn á Spáni

Tryggvi Páll Tryggvason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Lögreglan á Spáni handtók manninn.
Lögreglan á Spáni handtók manninn. Lögreglan á Spáni

Lögreglan á Spáni hefur handtekið íslenskan karlmann sem sagður er hafa verið dæmdur í tólf ára fangelsi í Danmörku fyrir að hafa misnotað dóttur sína kynferðislega.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá spænsku lögreglunni sem gefin var út í dag. Þar segir að dönsk yfirvöld hafi gefið út evrópska handtökuskipun á hendur manninum eftir að hann flúði land.

Maðurinn var sakaður um að hafa neytt dóttur sína til þess að hafa við sig kynferðismök í alls tíu skipti.

Brotin eru sögð hafa verið framin á árunum 2006 til 2010 á Íslandi og í Danmörku. Maðurinn var einnig sakaður um að hafa beitt dóttur sína ofbeldi til þess að ná vilja sínum fram gegn henni.

Í tilkynningu spænsku lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið dæmdur til tólf ára fangelsisvistar í Danmörku fyrir brotin, sem sögð eru hafa verið framin er dóttir hans var yngri en tólf ára. Þá á hann einnig að hafa verið sakfelldur fyrir vörslu barnaníðsefnis.  

Í frétt BT í Danmörku segir að maðurinn hafi flúið land áður en að dómur féll í máli hans.

Í tilkynningu lögreglunnar á Spáni segir að hún hafi komið að málinu í sumar þegar fram kom beiðni um aðstoð frá dönsku lögreglunni.

Síðustu daga hafi aðgerðir lögreglunnar í bænum Benissa á Alicante á Spáni hafi skilað sér í því að maðurinn var handtekinn í grennd við aðsetur hans þar.

Fréttin hefur verið uppfærð með þeim upplýsingum að maðurinn hafi verið dæmdur í fangelsi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.