Erlent

Heil­brigðis­starfs­fólk beðið um að vinna þrátt fyrir að vera með veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Clinique CHC MontLégia-spítala í Liège.
Frá Clinique CHC MontLégia-spítala í Liège. Vincent Kalut / Photonews via Getty

Heilbrigðisstarfsfólk í borginni Liège í Belgíu hefur verið beðið um að halda áfram störfum þrátt fyrir að það kunni að greinast með Covid-19. Smituðum hefur fjölgað hratt í borginni síðustu daga og spítalainnlögnum sömuleiðis.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að um fjórðungur heilbrigðisstarfsmanna í borginni sé nú frá vinnu með Covid-19. Tíu spítalar hafa óskað eftir því við starfsfólk sitt sem hefur greinst jákvætt af kórónuveirunni að það haldi áfram störfum, þrátt fyrir veikindin.

Forystumaður samtaka belgískra heilbrigðisstéttarfélaga, Dr. Philippe Devos, segir þá að starfsfólkið geti ekki annað en reynt að vinna áfram, ef koma eigi í veg fyrir algjört hrun heilbrigðiskerfis borgarinnar á næstu dögum.

Hann kveðst þó gera sér grein fyrir hættunni sem fyrir hendi er, að starfsfólk gæti borið veiruna í annars ósmitaða sjúklinga inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Á síðustu dögum hefur einn af hverjum þremur sem farið hefur í sýnatöku greinst með kórónuveiruna. Verið er að flytja sjúklinga til annarra borga og öllum skurðaðgerðum sem ekki teljast nauðsynlegar hefur verið slegið á frest.

Vika er síðan Frank Vandenbroucke, heilbrigðisráðherra Belgíu, sagði að landið væri á barmi „flóðbylgju sýkinga,“ þar sem stjórnvöld myndu ekki lengur geta haft hemil á faraldrinum.


Tengdar fréttir

Hríðversnandi staða í Evrópu

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Spáni og hertar takmarkanir voru kynntar á Ítalíu vegna kórónuveirufaraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×