Erlent

CBS svarar fyrir sig og birtir myndband af Trump að ganga út úr viðtalinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr viðtalinu
Úr viðtalinu CBSNews/60 MINUTES frá AP

Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS hefur birt myndband úr viðtali fréttaskýringaþáttarins 60 mínútur við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þar sem sjá má hann rífast við fréttamanninn Lesley Stahl, áður en hann gekk út úr viðtalinu.

Viðtalið sjálft hefur vakið mikla athygli en Trump kvartaði mjög yfir því áður en það var birt. Birti hann meðal annars sjálfur upptöku Hvíta hússins af viðtalinu til þess að sýna fram á hvernig það hafi verið, að eigin mati, „FALSKT OG HLUTDRÆGT,“ líkt og hann komst að orði.

Trump mislíkaði aðgangsharka Stahl og stöðvaði viðtalið eftir að hafa kvartað sáran undan því að Stahl hefði farið mýkri höndum um Joe Biden, mótframbjóðanda hans í forsetakosningunum ytra. Meðal þess sem Trump kvartaði yfir var það að Stahl spurði hann í upphafi hvort að hann væri reiðubúinn til þess að svara erfiðum spurningum.

Í myndbrotinu sem CBS birtir má sjá Trump aftur kvarta yfir því, áður en Stahl spyr hann hvort hann telji að hegðun hans á samfélagsmiðlum geti fælt kjósendur frá.

„Ég tel að ég væri ekki hér ef það væri ekki fyrir samfélagsmiðla. Fjölmiðlar eru falskir. Til að vera hreinskilinn, ef það væri ekki fyrir samfélagsmiðla, þá hefði ég enga möguleika á því að láta rödd mína heyrast.“

Nokkrum augnablikum síðar snýr Trump sér að starfsmanni sínum og segir að nú sé komið nóg af viðtalinu, áður en hann stendur upp og gengur út. Í frétt á vef 60 mínútna segir að forsetinn hafi ekki snúið aftur til þess að halda viðtalinu áfram. Þar má einnig nálgast uppskrifaða útgáfu af viðtalinu.

Hér fyrir neðan má síðan sjá viðtölin við bæði Donald Trump og Joe Biden í heild sinni.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.