Enski boltinn

Vildi ekki svara því hvort Rúnar Alex fengi tækifæri í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson á æfingu með Arsenal. Fær hann tækifæri gegn Rapid Vín í Evrópudeildinni í dag?
Rúnar Alex Rúnarsson á æfingu með Arsenal. Fær hann tækifæri gegn Rapid Vín í Evrópudeildinni í dag? getty/Stuart MacFarlane

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, vildi ekki svara því hvort Rúnar Alex Rúnarsson yrði í marki liðsins gegn Rapid Vín í Evrópudeildinni er hann var spurður að því á blaðamannafundi í gær.

„Ég get því miður ekki sagt hvernig liðið verður,“ sagði Arteta. Rúnar Alex á enn eftir að leika sinn fyrsta leik fyrir Arsenal eftir félagaskiptin frá Dijon í Frakklandi.

Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal og hefur leikið alla leiki liðsins á þessu tímabili fyrir utan leikinn um Samfélagsskjöldinn þar sem Emiliano Martínez stóð á milli stanganna. Martínez var svo seldur til Aston Villa.

Thomas Partey, sem Arsenal keypti frá Atlético Madrid á lokadegi félagaskiptagluggans, gæti byrjað sinn fyrsta leik með Arsenal í dag. Hann kom inn á sem varamaður í 1-0 tapi liðsins fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Leikur Arsenal og Rapid Vín hefst klukkan 16:55 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

Tvö önnur ensk lið verða í eldlínunni í Evrópudeildinni í kvöld. Tottenham tekur á móti LASK Linz frá Austurríki og Leicester City fær Zorya Luhansk frá Úkraínu í heimsókn.

Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:00. Leikur Tottenham og LASK Linz verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.