Íslenski boltinn

Tveir erlendir leikmenn farnir frá ÍBV og óljóst með hina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grace Hancock og Miyah Watford hafa leikið sinn síðasta leik fyrir ÍBV.
Grace Hancock og Miyah Watford hafa leikið sinn síðasta leik fyrir ÍBV. vísir/daníel

Óvíst er hversu margir af erlendu leikmönnunum sem hafa leikið með ÍBV í sumar verða með liðinu í síðustu tveimur leikjum þess í Pepsi Max-deild kvenna, að því gefnu að hægt verði að klára Íslandsmótið. ÍBV er í 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar með sautján stig, einu stigi frá fallsæti.

Átta erlendir leikmenn hafa leikið með ÍBV í sumar: Danielle Tolmais, Miyah Watford, Grace Hancock, Fatma Kara, Hanna Kallmaier, Eliza Spruntule, Olga Sevcova og Karlina Miksone. Þær þrjár síðastnefndu eru nú með lettneska landsliðinu sem mætir Svíþjóð og Slóvakíu í undankeppni EM á næstu dögum.

Tolmais yfirgaf herbúðir ÍBV fyrir nokkru síðan og ljóst er að þær Watford og Hancock koma ekki aftur til liðsins. Watford lék fimmtán leiki með ÍBV í Pepsi Max-deildinni í sumar og skoraði þrjú mörk og Hancock lék tíu leiki og skoraði eitt mark.

„Flestar þeirra eru í landsliðsverkefni eins og er. En af þeim sem byrjuðu mótið eru þrjár farnar. Svo eru hinar samningslausar og það er verið að semja aftur. Þær þurfa reyndar að fara í sóttkví þegar þær mæta aftur. Þetta er mjög óljóst hjá okkur og kemur illa við okkur,“ sagði Andri Ólafsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Vísi í dag.

„Allar þær sem koma til baka í kringum 1. nóvember eftir landsleikina fara í sóttkví. En það er reyndar ekkert staðfest að þær komi til baka. Þetta er í vinnslu. Við verðum sennilega ekki með sama lið og við höfum spilað á.“

Eins og áður sagði á ÍBV tvo leiki eftir í Pepsi Max-deildinni, gegn Selfossi á útivelli og KR á heimavelli. Ný dagsetning fyrir þá leiki kemur í dag.

„Það ætti að vera í lagi að spila hér svo lengi sem það er ekki snjór og vitlaust veður. Við æfum bara úti núna og það ekkert vandamál, nema við þurfum að æfa fyrr út af myrkri,“ sagði Andri aðspurður um aðstæður til fótboltaiðkunar í Vestmannaeyjum.


Tengdar fréttir

KSÍ ætlar að klára Íslandsmótið

Svo lengi sem takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember ætlar KSÍ að klára Íslandsmótið í fótbolta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.