Enski boltinn

Sky: Liverpool og Man. United í leyniviðræðum um evrópska ofurdeild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool fagnar sigri sínum í Meistaradeildinni vorið 2019.
Liverpool fagnar sigri sínum í Meistaradeildinni vorið 2019. Getty/Ian MacNicol

Sky fréttastofan slær því upp í dag að viðræður séu í gangi við mörg stærstu fótboltafélög Evrópu um að mynda nýja evrópska úrvalsdeild án beinnar aðkomu UEFA.

Sky hefur heimildir fyrir því að bæði Liverpool og Manchester United séu í leyniviðræðum um að taka þátt í þessari deild en enn fremur er búist við því að Arsenal, Manchester City og Chelsea sé líka boðið að vera með.

Lið frá Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni eru sögð vera í þessum viðræðum en það er búist við því að stærstu liðum Evrópu verði boðið að vera með og miklir peningar eru í boði.

JP Morgan bankinn hefur safnað miklu fjárfestingarfé til að setja deildina af stað. Talað um að stofnféð geti verið sex milljarðar dollara eða meira en 836 milljarðar íslenskra króna.

Evrópska úrvalsdeildin, eins og vinnuheitið er (European Premier League), er deild sem er í samstarfi við FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, en ekki UEFA sem sér um Meistaradeildina.

Talað er um að mögulega geti þessi nýja evrópska úrvalsdeild farið af stað strax árið 2022. Hún á að vera skipuð átján liðum og leikirnir munu fara fram yfir allt tímabilið.

Efstu liðin myndu síðan taka þátt í úrslitakeppni þar sem sigurvegararnir gætu fengið meira en hundrað milljónir punda á hverju ári eða meira tuttugu milljarða íslenskra króna.

Evrópska úrvalsdeildin mun því verða í samkeppni við Meistaradeildina og það gæti þýtt mikla mótstöðu frá Knattspyrnusambandi Evrópu. Það má líka búast við því að UEFA og FIFA gætu farið í hart og endað fyrir dómstólum.

Í frétt Sky kemur fram að formleg tilkynning gæti verið gefin út fyrir næstu mánaðamót en það eru þó enn einhverjar líkur á að þetta detti allt saman upp fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×