Erlent

Utanríkisráðherra Danmerkur tilkynntur til lögreglu fyrir nauðgun

Sylvía Hall skrifar
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur. Getty/Ole Jensen

Lögreglunni á Jótlandi hafa borist tilkynningar frá almennum borgurum þar sem utanríkisráðherrann Jeppe Kofod er sakaður um að hafa nauðgað stúlku árið 2008. Kofod hefur áður gengist við því að hafa átt samræði við stúlkuna, sem var þá fimmtán ára gömul, en hann var sjálfur 34 ára á þeim tíma.

Atvikið átti sér stað í gleðskap eftir málþing í lýðháskólanum í Esjberg páskana 2008. Þar var flutti Kofod erindi, en hann var þá þegar orðinn þingmaður fyrir Jafnaðarmannaflokkinn í Danmörku. Stúlkan var þeim tíma í ungliðahreyfingu flokksins.

Þetta er eitt margra mála sem hafa nú komist aftur í umræðuna í Danmörku eftir að fleiri konur fóru að stíga fram og segja frá reynslu sinni, líkt og gerðist hér á landi í MeToo-bylgjunni svokölluðu.

Frank Jensen, yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, sagði til að mynda af sér embætti í dag vegna ásakana í sinn garð. 

Kofod hefur játað að hafa átt samræði við stúlkuna og ræddi kynni þeirra í viðtali við TV2 fyrir um það bil mánuði. Þar sagðist hann hafa margoft séð eftir því sem gerðist og hann hafi axlað ábyrgð á þeim mistökum.

„Ég veit að það er ekki nóg að biðjast afsökunar. Ég vildi að ég gæti hafa gert þetta öðruvísi. Það eina sem ég get gert núna er að sjá eftir þessu,“ sagði Kofod, sem sagði þetta vera stærstu mistök lífs síns. 

Samræðisaldur í Danmörku er fimmtán ár, en í tilkynningu frá lögreglu staðfestir hún að tilkynningarnar séu sumar hverjar um brot gegn 223. grein dönsku hegningarlaganna, sem oft er kölluð „kennaraákvæðið“, og er þar kveðið á um að samræðisaldur skuli miðast við átján ár þegar meint fórnarlamb á samræði við einstakling sem er í valda- eða ábyrgðarstöðu gagnvart því.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og samflokkskona Kofod, segist líta málið alvarlegum augum. Hún beri þó enn traust til hans sem utanríkisráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.