Erlent

Níu hafa verið hand­tekin vegna morðsins

Sylvía Hall skrifar
Blóm hafa verið lögð við skólann sem kennarinn kenndi við.
Blóm hafa verið lögð við skólann sem kennarinn kenndi við. AP/Michel Euler

Kennarinn sem myrtur var í Conflans-Sainte-Honorine, úthverfi Parísar í gær hét Samuel Paty og var hann 47 ára að aldri. Franska lögreglan rannsakar morðið sem hyrðjuverk en Paty var hálshöggvinn af manni sem vopnaður var stórum hníf. Níu eru nú í haldi lögreglu vegna morðsins en árásarmaðurinn var átján ára gamall að sögn lögreglu.

Paty var sögu- og landafræðikennari og hafði sýnt skopmyndir af Múhammeð spámanni í kennslustund. Um klukkan 17:00 að staðartíma í gær var hann myrtur nærri skóla í úthverfinu en árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglumönnum.

Níu hafa verið handteknir í tengslum við málið, þar á meðal foreldrar barns í skólanum sem Paty kenndi við að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Þá vekur athygli að árásin átti sér stað nú þegar réttarhöld fara fram vegna árásar á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París árið 2015, sem hafði endurbirt myndir af spámanninum. Myndbirtingin leiddi til mikillar reiði meðal múslima og á endanum til árásarinnar. Al-Qaeda á Arabíuskaganum lýsti yfir ábyrgð á árásinni.

Franskir miðlar greina frá því að kennaranum höfðu borist hótanir eftir kennslustundina þar sem hann sýndi myndirnar.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði árásina bera öll einkenni hryðjuverkaárásar og fordæmdi verknaðinn. Sagði hann Paty hafa verið myrtan fyrir það að hafa kennt nemendum sínum tjáningarfrelsi og að árásin myndi ekki sundra frönsku þjóðinni.

Nemendur eru sagðir vera í áfalli vegna morðsins. Einn nemanda hans sagði hann hafa verið kennari sem elskaði starf sitt og hafði raunverulega ástríðu fyrir því að kenna þeim.


Tengdar fréttir

Rannsaka hrottalegt morð á kennara sem hryðjuverk

Franska lögreglan rannsakar nú hrottalegt morð á kennara sem sýndi skopmyndir af Múhammeð spámanni í kennslustund sem hryðjuverk. Kennarinn var hálshöggvinn og skutu lögreglumenn árásarmanninn til bana.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.