Erlent

Mismuna Rómafólki í skjóli faraldursins

Samúel Karl Ólason skrifar
Tvo Rómabörn að leik í þorpi í Búlgaríu.
Tvo Rómabörn að leik í þorpi í Búlgaríu. AP/Vadim Ghirda

Heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar hefur verið notraður til að áreita Rómafólk víða í Mið- og Austur-Evrópu. Mannréttindasamtök og sérfræðingar óttast að með aukinni dreifingu veirunnar muni mismununin og áreitið aukast einnig.

Í ítarlegri umfjöllun AP fréttaveitunnar segir að í Búlgaríu hafi sótthreinsiefni til að mynda verið varpað á samfélög Rómafólks úr flugvélum og þyrlum sem notaðar eru til að bera áburð og skordýraeitur á tún.

Tilkynningum um að lögregluþjónar hafi beitt Rómafólk ofbeldi hefur fjölgað og í Slóvakíu hefur herinn verið látinn skima eftir veirunni meðal þessa fólks og hvergi annars staðar.

Þessar aðgerðir eru framkvæmdar án þess að tilkynningar hafi borist um umfangsmikla útbreiðslu veirunnar meðal Rómafólks. Aðgerðirnar þykja líkjast þeim sem popúliskir leiðtogar hafa beitt til að herða tök sín í skjóli faraldursins.

Rómafólk rekur rætur sínar til ættbálka í norðurhluta Indlands og aldalöng mismunun og ofsóknir hafa gert meðlimi þessa samfélags af einhverjum fátækustu og minnst menntuðu íbúum Evrópu. Rómafólk býr víða í afgirtum hverfum og með takmarkaðan aðgang að rafmagni, rennandi vatni og heilbrigðisþjónustu.

Margir eiga erfitt með að finna vinnu og heilt yfir er meðal ævilengd Rómafólks styttri en annarra hópa.

Í Moldóvu sakaði borgarstjóri Rómafólk um að dreifa veirunni meðal íbúa borgarinnar og embættismenn í Ivano-Frankivsk í Úkraínu skipuðu lögreglu borgarinnar að vísa öllu Rómafólki á brott. Í Búlgaríu hafa stjórnmálamenn lýst samfélögum Rómafólks sem „smithreiðrum“.

Í Slóvakíu er atvik til rannsóknar þar sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa barið fimm börn með kylfu og hótað að skjóta þau til bana fyrir að leika sér fyrir utan þorp þeirra.

Sögur sem þessar koma ekki eingöngu frá Austur-Evrópu heldur einnig ríkjum eins og Belgíu og Ítalíu. Bæjarstjóri þorps nærri París í Frakklandi varaði íbúa þar við því að láta yfirvöld vita um leið og það sæist til vagnalestar. Var hann þar að vísa til Rómafólks.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.