Erlent

Facebook bannar efni sem afneitar helförinni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mark Zuckerberg er stofnandi, forstjóri og stærsti hluthafi Facebook.
Mark Zuckerberg er stofnandi, forstjóri og stærsti hluthafi Facebook. Drew Angerer/Getty

Samfélagsmiðlarisinn Facebook hefur ákveðið að banna hjá sér deilingar á efni sem inniheldur þá söguskoðun að helförin hafi ekki átt sér stað eða breytir viðteknum söguskoðunum um hana.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins er haft eftir Mark Zuckerberg, stofnanda, forstjóra og stærsta hluthafa Facebook, að hann hafi átt í erfiðleikum með „spennuna“ milli tjáningarfrelsis og banns við slíkum færslum. Hann hafi þó komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri hið rétta í stöðunni.

Fyrir tveimur árum sagði Zuckerberg, sem er gyðingur, að færslum sem höfnuðu eða gerðu lítið úr helförinni ætti ekki að eyða sjálfkrafa fyrir að innihalda rangar upplýsingar. Þessi orð forstjórans voru afar umdeild og ollu miklum viðbrögðum.

Nú hefur Facebook þó horfið frá þeirri stefnu sem fólust í orðum Zuckerberg. Sjálfur segist hann hafa skipt um skoðun.

„Þankagangur minn hefur þróast eftir að ég sá tölfræði sem benti til aukningar í ofbeldi gegn gyðingum. Það hefur stefna okkar um almenna hatursorðræðu einnig gert,“ skrifaði Zuckerberg í opinberri Facebook-færslu.

Monika Bicker, varaforseti yfir efnisveitustefnu Facebook, segir að síðar á þessu ári verði búið að búa svo um hnútana hjá samfélagsmiðlinum, að fólki sem leitar að upplýsingum um helförina, eða afneitun hennar, á Facebook, verði vísað á traustar heimildir um málefnið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×