Íslenski boltinn

Ásta Eir framlengir við topplið Breiðabliks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásta Eir í leik með íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu.
Ásta Eir í leik með íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu. Vísir/Vilhelm

Ásta Eir Árnadóttir hefur ekkert leikið með Breiðablik í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í sumar þar sem hún eignaðist nýverið dreng. Nú er ljóst að hún mun leika með Blikum allavega næstu tvö ár en hún skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í gær.

Þessu greindu Blikar frá á samfélagsmiðlum sínum.

„Ásta Eir hefur verið einn mikilvægasti leikmaður liðsins síðustu ár, en hefur ekkert verið með í ár þar sem hún eignaðist dreng í sumar. Blikar óska Ástu og fjölskyldu innilega til hamingju og eftirvæntingin er mikil að sjá hana aftur úti á vellinum í græna búningnu,“ segir meðal annars í tilkynningu Blika sem má sjá hér að neðan.

Ásta Eir hefur verið hluti af meistaraflokki Breiðabliks frá árinu 2009, þá aðeins sextán ára gömul. Alls hefur þessi öflugi bakvörður spilað 172 leiki fyrir félagið síðan og skorað í þeim tíu mörk.

Var hún einnig hluti af íslenska landsliðinu áður en hún þurfti að taka sér frí vegna barneignar. Hún á að baki átta landsleiki fyrir A-landslið Íslands ásamt 25 leikjum fyrir yngri landsliðin.

Breiðablik er sem stendur á toppi Pepsi Max deildarinnar. Liðið er með tveggja stiga forystu á Val sem er í 2. sætinu ásamt því að eiga leik til góða. Það þarf því mikið að gerast að Ásta Eir verði ekki hluti af liði sem stefni á að verja Íslandsmeistaratitilinn næsta sumar.

Ásta Eir í baráttunni gegn Elínu Mettu Jensen í leik Vals og Breiðabliks á síðustu leiktíð.vísir/bára


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.