Erlent

Óreiða í Madríd og uggur í Lissabon

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Heilbrigðisstarfsmernn við skimun í Madríd.
Heilbrigðisstarfsmernn við skimun í Madríd. AP/Bernat Armangue

Neyðarástandi var lýst yfir í Madríd vegna kórónuveirunnar í dag. Yfirlýsing spænskra stjórnvalda hefur þegar tekið gildi og mun standa í tvær vikur. 

Ríkisstjórnin hafði áður sett hertar takmarkanir á í höfuðborginni en borgaryfirvöld fengu þeirri ákvörðun hnekkt fyrir dómstólum. Nú þarf að taka þessar sömu takmarkanir upp á ný.

Þetta hefur valdið nokkrum ruglingi í Madríd. „Manni verður eiginlega óglatt. Við vitum ekkert hvað við megum og megum ekki gera. Ef þau vilja hafa þessar takmarkanir þá er það bara þannig,“ sagði Vicente de la Torre, bifvélavirki í borginni.

Þúsund í gær

Í grannríkinu Portúgal fjölgar smituðum nú hraðar og hraðar. Þúsund ný tilfelli greindust í gær og hafa greiningar ekki verið svo margar í tæplega hálft ár. Landsmenn lýsa þungum áhyggjum af þróuninni.

„Ég hef miklar áhyggjur. Á hverjum degi fjölgar smituðum og fólk er að deyja, jafnvel þótt þetta hafi ekki verið jafnslæmt og víða annars staðar í Evrópu. Nú er þetta hins vegar að versna, verra en þetta var í upphafi, og senn kemur vetur. Þá verður kaldara,“ sagði blómasalinn Maria das Dores Carvalho.

Hvergi fjölgar smituðum þó jafnhratt í álfunni og í Tékklandi. Rúmlega fimm þúsund smit greindust í gær og var tilkynnt um hertar aðgerðir í framhaldinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×