Erlent

Setti ráða­bruggið í sam­hengi við orð­ræðu Trumps

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, á blaðamannafundi í ríkinu í dag.
Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, á blaðamannafundi í ríkinu í dag. AP/Skrifstofa ríkisstjóra í Michigan

Gretchen Whitmer ríkisstjóri Michigan var harðorð í garð Donalds Trump Bandaríkjaforseta í ávarpi sem hún flutti á blaðamannafundi í dag. Alls hafa nú þrettán verið ákærðir fyrir aðild að ráðabruggi um að ræna ríkisstjóranum.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) tilkynnti í dag að hún hefði stöðvað téðar fyrirætlanir hópsins. Sex hafa verið ákærðir fyrir að hafa ætlað að ræna Whitmer í sumarhúsi hennar og sjö hafa verið ákærðir fyrir að skipuleggja valdarán í Michigan. 

Hópurinn virðist tengjast vopnuðum öfgasveitum hægri manna, sem hafi haft uppi hörð mótmæli vegna kórónuveiruaðgerða í ríkinu.

Whitmer tjáði sig um málið á blaðamannafundi í dag. Hún setti það í samhengi við orðræðu og framgöngu Trumps, sem hún kvað hafa alið á sundrung og ofbeldi.

„Forseti Bandaríkjanna stóð á sviði fyrir framan bandarísku þjóðina í síðustu viku og neitaði að fordæma öfgahópa hvítra þjóðernissinna og haturshópa, sem eru eins og þessar tvær vopnuðu sveitir hægri manna,“ sagði Whitmer í ávarpi sínu í dag.

Þar vísaði hún til ummæla Trumps í kappræðum hans og Joe Biden, forsetaefnis Demókrataflokksins, í síðustu viku, þar sem forsetinn var spurður hvort hann væri tilbúinn að fordæma þjóðernissinna og aðra hægri sinnaða öfgahópa. Það gerði Trump ekki heldur beindi því til slíkra hópa að „halda sig til hlés og bíða“. Trump hefur þó fordæmt umrædda hópa á opinberum vettvangi síðan.

„Haturshópar túlkuðu ummæli forsetans ekki sem ávítur heldur hvatningaróp. Sem ákall til aðgerða. Orð leiðtoga okkar skipta máli. Þau hafa vægi. Þegar leiðtogar okkar hitta, hvetja eða vingast við innlenda hryðjuverkamenn réttlæta þeir gjörðir þeirra. Þeir eru samsekir,“ sagði Whitmer á blaðamannafundinum í dag.

Ávarp Whitmer má horfa á í heild í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Ætluðu að ræna ríkisstjóra Michigan

Alríkislögregla Bandaríkjanna segist hafa stöðvað ráðabrugg hóps manna um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan, og fella stjórnvöld ríkisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×