Fótbolti

Gylfi: Held að vinstri löppin sé betri en sú hægri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi fagnar af innlifun.
Gylfi fagnar af innlifun. vísir/vilhelm

„Tilfinningin er mjög góð, gæti ekki verið betri. Við gerðum okkur þetta mjög erfitt í lokin en í svona leik þegar staðan er bara 2-1 er allt undir. En við stóðumst pressuna í lokin sem er mjög gott,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir sigur Íslands á Rúmeníu, 2-1, í umspili um sæti á EM í kvöld.

Gylfi var hetja íslenska liðsins og skoraði mörk þess í fyrri hálfleik, bæði með vinstri fæti.

„Ég held að vinstri löppin sé betri en sú hægri,“ sagði Gylfi léttur. „Það var mjög gott að skora tvö mörk í dag og koma okkur í góða stöðu. Ég hef ekki séð vítið sem þeir fengu en við vorum frekar óheppnir. Það hefði verið þægilegra að ná að stjórna leiknum betur og hafa þetta aðeins þægilegra í lokin.“

Íslendingar voru með góð tök á leiknum þegar Rúmenar fengu vítaspyrnu eftir um klukkutíma leik. Alexandru Maxim skoraði úr vítinu og hleypti spennu í leikinn.

„Mér fannst við stjórna leiknum. Þeir voru kannski aðeins meira með boltann í öftustu línu en okkur leið nokkuð vel með það. Þeir skoruðu úr vítinu og fóru að stjórna leiknum aðeins meira og færðu sig framar. En við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við erum mjög sterkir undir pressu í vörninni. Við náum einhvern veginn alltaf að halda svona stöðu,“ sagði Gylfi.

Eftir mörkin í kvöld vantar Gylfa aðeins tvö mörk til að jafna markamet landsliðsins sem þeir Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen eiga í sameiningu.

„Ég var einmitt að hugsa um það áðan. Ég vissi ekki alveg hvað var langt í það en það styttist,“ sagði Gylfi.

Hafnfirðingurinn hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Everton í upphafi tímabils og var því ánægður að fá að spila heilan leik í kvöld.

„Að spila 90 mínútur og aðeins framar en ég hef gert að undanförnu. Þetta var æðislegt, skora tvö mörk og vera komnir í seinni leikinn,“ sagði Gylfi.

En sendi hann Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóra Everton, skilaboð með frammistöðunni í kvöld?

„Það er nóg af landsleikjum í kvöld en vonandi hefur hann séð þetta,“ sagði Gylfi að lokum.

Klippa: Viðtal við Gylfa eftir sigurinn á Rúmeníu

Tengdar fréttir

Leikformið ekki upp á marga fiska

Jóhann Berg Guðmundsson sagði spilamennsku landsliðsins gegn Rúmenum hafa verið frábæra. Liðið hefði átt að nýta tækifæri sín betur og skora fleiri mörk.

Engar afsakanir hjá þjálfara Rúmena

Þrátt fyrir spurningar fjölmiðlamanna um dómgæslu og vallaraðstæður hafði Mirel Radoi, þjálfari Rúmeníu, engan áhuga á að nota annað en spilamennsku sinna manna sem ástæðu fyrir tapinu gegn Íslandi.

Aron Einar sáttur í leiks­lok: Gamla bandið komið saman aftur

Landsliðsfyrirliðinn var eðlilega mjög sáttur eftir 2-1 sigur Íslands á Rúmeníu. Hann var sáttur með frammistöðu liðsins en var duglegur að minna á að þetta væri fyrri hálfleikur og sá síðari færi fram í Ungverjalandi í nóvember.

Átti mark Alfreðs að standa?

Eitt af þremur mörkum íslenska landsliðsins í fyrri hálfleik á móti Rúmeníu var ekki dæmt gilt þar sem Alfreð Finnbogason var sagður hafa verið rangstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×