Fótbolti

Engar afsakanir hjá þjálfara Rúmena

Sindri Sverrisson skrifar
Þjálfari Rúmena á hliðarlínunni í kvöld. Rúmenar áttu eitt skot á markið úr vítaspyrnu.
Þjálfari Rúmena á hliðarlínunni í kvöld. Rúmenar áttu eitt skot á markið úr vítaspyrnu. Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir spurningar fjölmiðlamanna um dómgæslu og vallaraðstæður hafði Mirel Radoi, þjálfari Rúmeníu, engan áhuga á að nota annað en spilamennsku sinna manna sem ástæðu fyrir tapinu gegn Íslandi.

„Við náðum ekki að gera það sem við ætluðum okkur. Við vitum hvað þeir eru þéttir fyrir í sínu 4-4-2 kerfi, náðum nokkrum sóknum en vorum of hægir. Þá töpuðum við boltanum sjö sinnum í fyrri hálfleik og fjórum sinnum leiddi það til skyndisókna,“ sagði Radoi.

Rúmenar fengu eina vítaspyrnu í leiknum en hefðu hugsanlega átt að fá annað víti þegar boltinn hrökk í hönd Ragnars Sigurðssonar innan teigs, seint í leiknum þegar staðan var 2-1.

„Vítið sem var gefið sá ég af bekknum og ég sá að olnbogi Íslendingsins [Ragnars] hæfði hann [leikmann Rúmeníu]. Ég sá seinna atvikið ekki vel. En ég vil ekki tala um dómarann. Við náðum ekki að spila vel í fyrri hálfleik. Við vorum skárri í seinni hálfleik en ef ég hugsa um fyrri hálfleikinn okkar sé ég enga ástæðu til að ræða dómgæsluna,“ sagði Radoi.

Varðandi grasið á Laugardalsvelli, sem rifnaði illa upp á einum stað á vellinum, vildi Radoi lítið segja: „Það féllu einhverjir leikmenn við en við vorum búnir að æfa á þessum velli og hann skipti ekki máli hér. Það hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik réði því að við komumst ekki áfram í keppninni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×