Enski boltinn

Man United keypti engan leikmann af óskalista Solskjær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í 6-1 tapinu á móti Tottenham.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í 6-1 tapinu á móti Tottenham. Getty/Alex Livesey

Manchester United sótti sér nokkra nýja leikmenn í þessum glugga en það voru þó ekki leikmennirnir sem knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær vildi helst frá.

ESPN slær því upp að Manchester United hafi ekki keypt neinn leikmann af óskalista Norðmannsins.

Á lokadegi félagsskiptagluggans þá náði Manchester United í leikmennina Edinson Cavani, Alex Telles, Amad Traore og Facundo Pellistri. Félagið hafði áður eytt 40 milljónum punda í Ajax leikmanninn Donny van de Beek í byrjun september.

Heimildir ESPN herma að Solskjær hafi verið búinn að setja fram óskalista um nýja leikmenn í sumar. Enginn af þeim er orðinn leikmaður Manchester United í dag.

Þetta eru meðal annars Jadon Sancho hjá Borussia Dortmund, miðjumaðurinn Jack Grealish hjá Aston Villa og svo miðverðirnir Dayot Upamecano hjá RB Leipzig og Nathan Ake hjá Bournemouth. Solskjær vildi fá annan þeirra við hlið Harry Maguire í miðja vörn Manchester United liðsins.

Það fylgir þó sögunni að yfirmenn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United ráðfærðu sig við knattspyrnustjórann um kaupin á nýjum leikmönnum og hann gaf grænt ljós á þau öll.

Það sést samt kannski á hversu lítið hann hefur notað Donny van de Beek í upphafi tímabilsins að Solskjær hefur verið spenntari fyrir leikmanni.

Dortmund vildi frá 108 milljónir punda fyrir Jadon Sancho og Aston Villa vildi frá 80 milljónir punda fyrir Jack Grealish. Það þótti Manchester United vera of hátt að viðbættum greiðslum til umboðsmanna og hárra launagreiðslna.

Manchester City keypti síðan Nathan Ake fyrir 41 milljón pund snemma í ágúst og Dayot Upamecano skrifaði undir nýjan samning við RB Leipzig.

Manchester United hafði líka áhuga á því að fá Thiago Alcantara en Liverpool endaði á að kaupa spænska miðjumanninn á 20 milljónir punda.

Það má heldur ekki gleyma að Solskjær fékk ekki Erling Braut Håland í janúar. United fékk í staðinn Odion Ighalo á láni frá Kína.

Bestu kaup ársins voru þó á portúgalska miðjumanninum Bruno Fernandes sem hefur staðið sig frábærlega sem leikmaður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×