Enski boltinn

Redknapp segir að Tottenham geti unnið ensku deildina í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar einu af sex mörkum Tottenham á móti Manchester United með liðsfélögum sínum,
Harry Kane fagnar einu af sex mörkum Tottenham á móti Manchester United með liðsfélögum sínum, EPA-EFE/Oli Scarff

Harry Redknapp hefur mikla trú á Tottenham liðinu eftir stórsigurinn á Manchester United á Old Trafford um helgina.

Feðgarnir Jamie Redknapp og Harry Redknapp ræddu möguleika Tottenham á þessu tímabili á Sky Sports í gær en það er mikill meðbyr með lærisveinum Jose Mourinho hjá Tottenham eftir 6-1 stórsigur á Manchester United á Old Trafford um helgina.

„Þegar ég var á Everton leiknum og horfði á þetta Tottenham lið þá hugsaði ég með mér að þeir þyrftu kraftaverk til að komast í Meistaradeildarsæti. Allt í einu sér maður þvílíka breytingu á liðinu og við höfum ekki séð Gareth Bale ennþá,“ sagði Jamie Redknapp.

„Ef þú vilt frá hreinskilið svar frá mér þá held ég að þeir endi meðal fjögurra efstu liðanna og ég held meira segja líka að þeir gætu unnið ensku deildina á þessu tímabili,“ sagði Harry Redknapp.

„Þið haldið kannski að ég sé orðinn klikkaður en það lítur út fyrir að deildin verði opin í ár. Þegar við skoðum úrslitin frá því um helgina og bætum síðan við að það eru engir áhorfendur,“ sagði Harry Redknapp.

„Þetta er enginn smá leikmannahópur sem þeir eru með. Þeir eru með tvo menn í hverri stöðu og leikmannahópurinn þeirra er frábær. Ef eitthvað lið getur komist upp fyrir þessu tvö stóru þá er það Tottenham,“ sagði Harry Redknapp en það má hlusta á spjallið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×