Íslenski boltinn

Hallbera: Held að Blikarnir séu orðnir Íslandsmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallbera Gísladóttir hreinsar frá marki Vals.
Hallbera Gísladóttir hreinsar frá marki Vals. vísir/hulda margrét

Hallbera Gísladóttir, fyrirliði Vals, segir að Íslandsmeistaratitilinn sé að öllum líkindum genginn Valskonum úr greipum eftir 0-1 tapið fyrir Blikum í dag.

„Markverðir beggja liða áttu stórleik. Sandra [Sigurðardóttir] bjargaði okkur nokkrum sinnum vel en Sonný [Lára Þráinsdóttir] var frábær í markinu hjá þeim og varði mjög vel oft á tíðum,“ sagði Hallbera við Vísi eftir leik.

„Þetta var jafn leikur. Við hefðum mátt vera aðeins ákveðnari í fyrri hálfleik. Við vorum kannski full kurteisar á heimavelli. En mér fannst seinni hálfleikurinn betri hjá okkur. Það hefði verið fínt að sjá boltann fara allavega einu sinni inn.“

Valskonur þurftu að sækja og sérstaklega eftir að Agla María Albertsdóttir kom Blikum yfir. En mörkin komu ekki.

„Við reyndum að færa okkur framar en boltinn vildi ekki fara inn í dag. Við vorum nokkrum sinnum mjög nálægt því að skora en það gekk ekki. Heilt yfir eiga Blikarnir kannski sigurinn skilið,“ sagði Hallbera.

Breiðablik er með tveggja stiga forskot á Val á toppi Pepsi Max-deildarinnar og á auk þess leik til góða.

„Við ætlum bara að klára mótið með sóma. Ég ætla ekki að móðga neinn en ég held að Blikarnir séu orðnir Íslandsmeistarar. Það er hundfúlt en við ætlum að klára leikina sem við eigum eftir og klára þá,“ sagði Hallbera að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×