Íslenski boltinn

Elín Metta ekki búin að skora í 555 mínútur á móti Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonan Elín Metta Jensen í leiknum á móti Breiðabliki í Pepsi Max deild kvenna fyrr í sumar.
Valskonan Elín Metta Jensen í leiknum á móti Breiðabliki í Pepsi Max deild kvenna fyrr í sumar. Vísir/Daníel Þór

Elín Metta Jensen hefur raðað inn mörkum með Val og íslenska landsliðinu undanfarin sumur en hún hefur ekki fundið markaskóna sína í leikjum á móti Breiðabliki.

Valur tekur á móti Breiðabliki á morgun í óopinberum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi Max deild kvenna og Valsmenn þurfa svo sannarlega á mörkum að halda frá markadrottningunni sinni.

Leikurinn Vals og Breiðabliks hefst klukkan 17.00 á Origo vellinum á Hlíðarenda og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Blikakonur hafa aftur á móti haldið henni algjörlega í skefjum í leikjum liðanna undanfarin þrjú tímabil.

Elín Metta Jensen skoraði síðast á móti Breiðabliki í 2-0 sigri 10. ágúst 2017. Síðan þá hefur Elín Metta spilaði sex heila leiki á móti Blikum, fimm í deild og einn í bikar, án þess að skora.

Elín Metta er þar með búin að spila 555 mínútur í deild og bikar án þess að ná að finna netmöskvana fyrir aftan Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Blika.

Undanfarin þrjú tímabil hefur Elín Metta spilað 45 deildarleiki á móti öðrum liðum en Breiðabliki og skoraði í þeim 41 mark. Hún er hins vegar markalaus í síðustu fimm deildarleikjum á móti Blikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×