Enski boltinn

Sárt að vera dæmdur fyrir lífstíð fyrir aðeins fjóra leiki með Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Massimo Taibi í sínum besta leik í marki Manchester United sem var í sigri á Liverpool.
Massimo Taibi í sínum besta leik í marki Manchester United sem var í sigri á Liverpool. Getty/Matthew Ashton

Massimo Taibi spilaði bara fjóra leiki fyrir Manchester United en stuðningsmenn félagsins eru flestir ekki búnir að gleyma honum.

Það eru þó ekkert fagnaðarefni fyrir hann því hann er enn aðhlátursefni hjá mörgum meira en tuttugu árum síðar. Massimo Taibi ræddi Man. United martröðina sína í viðtali.

Massimo Taibi hefur nú tjáð sig um þessa örfáu leiki haustið 1999 sem gerðu hann svo ógleymanlegan í huga svo margra knattpyrnuáhugamanna.

Sumarið 1999 voru tímamót hjá Manchester United því eftir þrennutímabilið frábæra 1998-99 þá ákvað Peter Schmeichel að hætta og fara til Sporting CP í Portúgal.

Sir Alex Ferguson fann eftirmann Danans hjá Venezia og keypti Massimo Taibi á 4,5 milljónir punda. Leikirnir urðu þó bara fjórir.

Massimo Taibi spilaði reyndar mjög vel í fyrsta leiknum og var valinn maður leiksins í sigurleik á móti Liverpool. Svo breyttist allt í einum leik á móti Southampton.

Massimo Taibi gerði svakaleg mistök í 3-3 jafntefli á móti Southampton á Old Trafford þegar hann missti hættulítið skot Matt Le Tissier í gegnum klofið á sér. Síðan þá hafa margir kallað þetta verstu mistökin í sögu úrvalsdeildarinnar.

Taibi fékk síðan á sig fimm mörk á móti Chelsea í leiknum á eftir og eftir það voru örlög hans ráðin. Taibi hefur nú tjáð sig um þessa daga hjá United fyrir meira en tveimur áratugum síðan.

„Frá mínum bæjardyrum séð þá voru þetta ekki svona hryllileg mistök og örugglega ekki eitthvað sem er sanngjarnt að stimpla mann með fyrir lífstíð,“ sagði Massimo Taibi í viðtali við AmericanGambler.com.

„Þetta var bara eitt af því sem markverðir lenda stundum í. Ég hef séð full af svona, bæði í Englandi og á Ítalíu. Það lítur fáránlega út þegar markmenn missa boltann í gegnum klofið en það gerist oft. Þetta var í ekki fyrsta sinn og alls ekki í það síðasta,“ sagði Massimo Taibi.

„Ég lenti í svipuðu hjá Torino. Svona gerist. Þetta var slys og ekki mistök. Mistök er að koma út í boltann og missa af honum en það er algjört slys þegar svona skot fer í gegnum klofið á þér,“ sagði Taibi.

„Því miður töpuðum við 5-0 á móti Chelsea í næsta leik og svo gat ég ekki spilað í Meistaradeildinni af því að ég hafði verið skráður hjá AC Milan. Ferguson ákvað því að hvíla mig og gefa mér tíma til að læra tungumálið,“ sagði Taibi.

„Ég er orðinn gamall núna og hef sætt mig við þetta. Trúðu mér að það var samt sárt að heyra það á hverju ári að einhver væri búinn að velja mig versta markvörðinn í sögu úrvalsdeildarinnar. Ég hef heyrt þetta allt og það er sárt. Ekki af því að ég held því fram að ég sé einhver súperstjarna heldur út frá mannlega þættinum. Það er ekki hægt að dæma íþróttamann af fjórum leikjum,“ sagði Taibi.

Ég spilaði fjóra leiki og í tveimur þeirra spilaði ég vel og var valinn maður leiksins. Það gekk ekki eins vel í hinum en þið rústið orðspori markvarðar eftir aðeins fjóra leiki. Það er klikkun. Kannski eftir sex til sjö mánuði. Þú varst skelfilegur eftir 25 leiki. Ég skil það en að þetta hafi gerst eftir aðeins fjóra leiki, mér sárnaði það,“ sagði Massimo Taibi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×