Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - Stjarnan 2-1 | Spilað á eitt mark í Kópavogi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Karl Einarsson skoraði fyrra mark Breiðabliks gegn Stjörnunni og átti þátt í því seinna.
Viktor Karl Einarsson skoraði fyrra mark Breiðabliks gegn Stjörnunni og átti þátt í því seinna. vísir/bára

Breiðablik vann sanngjarnan sigur á Stjörnunni, 2-1, á Kópavogsvelli í kvöld. Með sigrinum komust Blikar upp í 3. sæti Pepsi Max-deildar karla. Stjörnumenn er hins vegar dottið niður í það sjötta eftir tvö töp í röð.

Stjarnan komst yfir með draumamarki Alex Þórs Haukssonar eftir tæpan hálftíma en Viktor Karl Einarsson jafnaði fyrir Breiðablik skömmu síðar. Thomas Mikkelsen skoraði svo sigurmark Blika úr vítaspyrnu á 63. mínútu.

Blikar voru miklu sterkari aðilinn í leiknum, einokuðu boltann og pressuðu svo vel. Stjörnumenn voru hrikalega slakir með boltann og áttu engin svör við pressu Blika. Stjörnumenn voru slakir í fyrri hálfleik en enn verri í þeim seinni þar sem þeir áttu ekki skot að marki.

Heimamenn tóku strax völdin í leiknum, stjórnuðu honum og fengu nokkur hálffæri en reyndu ekki mikið á Harald Björnsson í marki gestanna.

Á 28. mínútu kom Alex Stjörnunni yfir með glæsilegu marki, þvert gegn gangi leiksins. Hann fékk þá boltann frá Jósef Kristni Jósefssyni um 25 metra frá marki og þrumaði boltanum upp í markhornið.

Tveimur mínútum síðar fékk Mikkelsen dauðafæri eftir að Haraldur varði skot Gísla Eyjólfssonar en skaut yfir.

Blikar jöfnuðu á 34. mínútu. Viktor Karl skoraði þá með skoti úr vítateignum eftir sendingu Andra Rafns Yeoman. Skömmu síðar fór Alex harkalega í Andra Rafn en slapp með gult spjald.

Seinni hálfleikurinn var eins og sá fyrri. Stjörnumenn héldu til inn á eigin vallarhelmingi og Blikar sóttu stíft. Vörn gestanna hélt þó framan af seinni hálfleik og Blikar urðu að gera sér skot utan af velli að góðu.

Á 62. mínútu tapaði Hilmar Árni Halldórsson boltanum á miðjunni, Viktor Karl sendi á Brynjólf Andersen Willumsson sem féll eftir brot Alex og Sigurður Hjörtur Þrastarson benti á punktinn. Mikkelsen tók spyrnuna og skoraði af öryggi.

Þrátt fyrir að hafa tæpan hálftíma til að jafna gerðu Stjörnumenn sig aldrei líklega til þess. Raunar áttu þeir ekki marktilraun í seinni hálfleik og Blikar þurftu ekki að hafa mikið fyrir að halda fengnum hlut. Lokatölur 2-1, Breiðabliki í vil.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar stjórnuðu leiknum allan tímann og voru miklu sterkari aðilinn. Þrátt fyrir að lenda undir héldu þeir áfram að spila sinn bolta og hann bar á endanum árangur. Pressa þeirra var vel útfærð og kom Stjörnumönnum ítrekað í vandræði. Vítaspyrnan kom t.a.m. eftir að Breiðablik vann boltann á hættulegum stað nálægt marki Stjörnunnar. 

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Karl átti mjög góðan leik á miðju Breiðabliks, skoraði fyrra mark liðsins og átti sendinguna á Brynjólf þegar hann náði í vítaspyrnuna. Oliver Sigurjónsson stjórnaði umferðinni aftast á miðjunni og átti örugglega yfir 100 sendingar í leiknum. Andri Rafn lék vel í fyrri hálfleik og Höskuldur, sem kom inn á fyrir Andra Rafn í hálfleik, var líka góður. Mikkelsen var svo síógnandi.

Daníel Laxdal var besti leikmaður Stjörnunnar, var vel á verði í vörninni og bjargaði nokkrum sinnum. Annars var fátt um fína drætti hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

Eins og áður sagði réðu Stjörnumenn illa við pressu Blika og áttu í vandræðum með einföldustu sendingar. Sóknarleikur liðsins var afar bitlaus og Blika lentu aldrei í vandræðum í seinni hálfleik.

Hilmar Árni var alltof aftarlega og tapaði boltanum í aðdraganda vítaspyrnunnar. Halldór Orri Björnsson átti í miklum erfiðleikum og í raun ótrúlegt að hann hafi spilað 88 mínútur. Þá komust fremstu menn Stjörnunnar komust ekkert í takt við leikinn enda var þjónustan engin.

Hvað gerist næst?

Liðin leika sinn þriðja leik á viku á sunnudaginn. Breiðablik sækir topplið Vals heim á meðan Stjarnan mætir hinu Kópavogsliðinu, HK, í Kórnum.

Óskar Hrafn: Frábær frammistaða hjá mínu liði

Óskar Hrafn Þorvaldsson var ánægður með þolinmæðina sem Blikar sýndu gegn Stjörnumönnum.vísir/vilhelm

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sína menn eftir sigurinn á Stjörnunni í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Það er ánægjulegt að núna spiluðum við vel langstærstan hluta leiksins og fylgdum því eftir með því að taka þrjú stig,“ sagði Óskar í leikslok.

Stjarnan komst yfir á 28. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Það virtist ekki fá mikið á leikmenn Breiðabliks sem gáfu bara enn frekar í þegar þeir lentu undir.

„Leikmennirnir sýndu mikið þolgæði. Við fundum það í byrjun að við vorum með ágætis tak á Stjörnumönnunum og náðum að þrýsta þeim aftarlega. En það er erfitt að brjóta Stjörnuna á bak aftur. Þeir eru feykilega öflugir og vel skipulagðir,“ sagði Óskar.

„Það var alveg ljóst að þetta myndi taka tíma en við vorum þolinmóðir sem er eitthvað sem hefur vantað upp á í síðustu leikjum. Mér fannst þetta vera frábær frammistaða hjá mínu liði.“

En hvað var Óskar ánægðastur með í leik Breiðabliks í kvöld?

„Þolinmæðina sem við sýndum. Við héldum planinu sem við lögðum upp með í byrjun. Ég var ánægður með hvernig við unnum boltann fljótt aftur eftir að við töpuðum honum sem segir okkur að liðið var vel skipulagt. Margar sóknir okkar voru feykilega góðar. Svo sýndum við þroska með því að sigla þessu heim. Það var ljóst að á meðan munurinn var bara eitt mark var Stjarnan aldrei að fara að leggjast undir sæng og hætta,“ sagði Óskar.

„Við vissum að þeir myndu koma á einhverjum tímapunkti og við stóðumst það áhlaup vel. Ég er bara sáttur en auðvitað er það þannig, eins og ég sagði fyrir leik, að maður verður að passa sig að halda einhverju jafnvægi í þessu brjálæði sem þetta er. Ekki verða ofsakátur þegar þú vinnur og falla í svartnætti þegar þú tapar. Við höfum reynt að gera það.“

Rúnar Páll: Þetta var gefins víti

Ólafur Jóhannesson og Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfarar Stjörnunnar, þungir á brún.vísir/hulda margrét

Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, bar sig ágætlega þrátt fyrir tapið fyrir Breiðabliki.

„Það er ekki skemmtilegt að tapa leikjum og ég er mjög svekktur með það,“ sagði Rúnar.

„Við vorum klaufar við að halda boltanum og koma honum á samherja. Það gekk ekkert alltof vel hjá okkur í dag. Þannig er það bara, við töpuðum þessum leik og sá næsti er á sunnudaginn.“

Sóknarleikur Stjörnunnar var slakur í kvöld og liðið skapaði sér varla færi í leiknum.

En hefur Rúnar skýringu á bitlausum sóknarleik sinna manna í leiknum í kvöld?

„Nei, við stóðumst ekki pressuna og vorum hræddir við að spila boltanum á milli okkar,“ sagði Rúnar.

Hann var ekki sáttur við mörkin sem Stjarnan fékk á sig í leiknum og fannst vítið sem Breiðablik fékk vera mjög ódýrt.

„Við eigum aldrei að fá þessi mörk á okkur. Við vorum komnir yfir og í fínni stöðu. Við vörðumst vel en fengum á okkur mjög ódýrt víti að mér fannst. Það var engin snerting í sjálfu sér. Þetta var gefins víti. Svo áttum við ekki að hleypa Viktori [Karli Einarssyni] í skot í fyrra markinu,“ sagði Rúnar. „En það þýðir ekkert að grenja þetta, bara áfram með þetta.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira