Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - ÍA 1-3 | Fjölnismenn dýpra í gröfina

Sindri Sverrisson skrifar
Skagamenn sigla nokkuð lygnan sjó í deildinni.
Skagamenn sigla nokkuð lygnan sjó í deildinni. VÍSIR/BÁRA

ÍA kom sér upp fyrir HK í 8. sæti Pepsi Max-deildar karla með 3-1 sigri á Fjölni. Fjölnismenn hafa nú tapað tíu leikjum og aðeins tímaspursmál hvenær þeir falla.

Fjölnismenn litu á engan hátt út eins og þeir vildu berjast fyrir lífi sínu í upphafi leiks, en það átti eftir að breytast. Tryggvi Hrafn Haraldsson hefði átt að koma ÍA yfir eftir mínútu leik þegar hann slapp fram aleinn gegn Atla Gunnari Guðmundssyni sem reddaði málum með úthlaupi.

Tryggvi var aftur nálægt því að skora skömmu síðar og Stefán Teitur Þórðarson kom ÍA svo yfir á 16. mínútu þegar hann skoraði með ágætu skoti úr teignum eftir sendingu Gísla Laxdal Unnarssonar.

Eftir markið tóku Fjölnismenn betur við sér og færin voru þeirra það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Orri Þórhallsson lék fremstur og fékk tvö mjög góð færi, og Hans Viktor Guðmundsson átti skalla eftir hornspyrnu sem litlu munaði að endaði í markinu.

Skagamenn slökuðu fullmikið á en heimamenn skorti meiri gæði á fremsta þriðjungi vallarins til að nýta sér það, og þeir litu oft út fyrir að vera að spila með ókunnugum en ekki samherjum sínum.

Sama saga hélt áfram í seinni hálfleiknum og Fjölnismenn voru mun líklegri til að jafna metin en Skagamenn að bæta við forskotið. Þeir sýndu að þeir ætluðu sér að ná í fyrsta sigurinn. Orri kom sér í færi og Guðmundur Karl Guðmundsson sömuleiðis, eftir að hafa leyst Orra af hólmi og tekið hans stöðu fremst á vellinum. Jeffrey Monakana var þó duglegastur við að sækja á Skagavörnina en botnliðinu varð ekkert ágengt.

Það var svo á 83. mínútu sem Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði svo til út um leikinn með stórkostlegu skoti utan teigs, efst í hægra hornið, eftir að ÍA hafði varla skapað sér færi í háa herrans tíð. Guðmundur Karl hleypti spennu í leikinn á ný fimm mínútum síðar og Fjölnismenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, en þess í stað skoraði Tryggvi sitt annað mark seint í uppbótartíma, eftir góðan undirbúning Arons Kristófers Lárussonar.

Af hverju vann ÍA?

Vegna þess að þeir mættu nægilega slöku liði sem ekki nýtti færin sín. Þá er ÍA með hæfileikabúntin Tryggva Hrafn Haraldsson og Stefán Teit Þórðarson í sínu liði – menn sem þurfa ekki að eiga neinn glansleik til að gera útslagið.

Hverjir stóðu upp úr?

Leikurinn var ekki vel spilaður og erfitt að finna ljósa punkta. Tryggvi skoraði tvö mörk og það er alltaf gott dagsverk, þó að hann hafi oft verið meira áberandi. Jeffrey Monakana var hættulegastur Fjölnismanna og duglegur að reyna að búa eitthvað til.

Hvað gekk illa?

Úrslitasendingarnar og afgreiðslurnar í færunum sem liðið þó kom sér í voru ekki nógu góðar hjá Fjölni. Liðið vantar sárlega betri markaskorara. Skagamönnum gekk afar illa að byggja upp sóknir, slökuðu allt of mikið á í þeim efnum eftir að hafa komist yfir snemma leiks og hleyptu Fjölni þar að auki í ágæt færi.

Hvað gerist næst?

Fjölnismenn sækja FH-inga heim á sunnudaginn kl. 14 og á sama tíma tekur ÍA á móti Víkingi. Liðin fá svo vikuhlé áður en ÍA mætir FH og Fjölnir sækir Stjörnuna heim sunnudaginn 4. október.

Tryggvi: Vorum eitthvað slappir

„Það var mjög huggulegt að sjá boltann í markinu. Það var búið að liggja mikið á okkur, við áttum alls ekki góðan leik, svo ég er sáttur með úrslitin. Þetta hefur verið þannig í sumar að við höfum oft spilað vel og ekki náð góðum úrslitum, en í dag snerist það við,“ sagði Tryggvi Hrafn og bætti við:

„Við fengum nokkra opna sénsa í byrjun en svo fengum við bara mjög lítið af færum, og þeir klúðruðu fullt af mjög góðum færum. Við vorum eitthvað slappir, pressan léleg og við ekki nægilega þéttir, en það kom ekki að sök í dag.“

Eftir erfiða törn hefur ÍA nú unnið neðstu tvö liðin í síðustu tveimur leikjum sínum og sýnt að liðið er að minnsta kosti skör hærra en Grótta og Fjölnir:

„Ég held að það sé alveg ljóst. Þessi lið eru ekki búin að vinna marga leiki. Aðstæður buðu ekki mikið upp á að sýna það í síðasta leik og ég held að það hefði farið enn betur ef við hefðu spilað í ágætis veðri eða á gervigrasi, og sömuleiðis í dag þó að þetta hafi verið skárra í dag. En við erum betri en þessi lið,“ sagði Tryggvi. Með sigrunum hefur ÍA líka tryggt sæti sitt í deildinni en er að litlu að keppa þá í síðustu leikjunum?

„Þannig séð já. Við höldum bara áfram að sækja eins mikið af stigum og við getum, gíra okkur upp í hvern einasta leik og enda sem hæst í töflunni. Gera betur en í fyrra,“ sagði Tryggvi Hrafn sem gerir ráð fyrir að halda á brott frá ÍA eftir tímabilið en segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvert hann fari.

Ásmundur: Þeir þurfa einn möguleika en við þrjátíu

„Þetta er sama sagan enn og aftur,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.

„Þeir náðu að setja ágætt mark í byrjun en eftir það er frammistaðan góð og við sköpuðum nóg í þessum leik til að vinna hann. En á meðan að menn klára ekki færin sín þá er það erfitt. Það er til skiptis hver það er sem klikkar á færunum, og það liggur yfir einhver skortur á sjálfstrausti fyrir framan markið, til að setja okkur í gírinn. Þetta er eiginlega ótrúlegt, að hafa ekki skorað fyrr í þessum leik,“ sagði Ásmundur.

„Okkur vantar gæði til að skora mörkin en að öðru leyti spiluðum við vel,“ sagði Ásmundur, og bætti við:

„Ég missti töluna á dauðafærunum þegar það voru komnar 10-15 mínútur inn í seinni hálfleikinn. Við hefðum getað klárað þennan leik sannfærandi ef að við hefðum nýtt sæmilegan hluta af þeim færum sem við fengum. En Skagamenn héldu sinni forystu vel, drápu svolítið tempóið niður um miðjan seinni hálfleikinn og voru klókir í því. Við náðum einu marki en vorum í staðinn svolítið opnir. Munurinn á liðunum liggur kannski í því að þeir þurfa einn möguleika og fá mark, á meðan að við þurfum kannski þrjátíu og náum einu.“

Ásmundur hefur þjálfað Fjölni síðustu tvö ár og er með samning út næsta ár við félagið. Hann hyggst standa við þann samning:

„Ég hef bara hug á því. Það er svo sem ekkert annað í spilunum. Við erum bara á þeirri vegferð að þétta þennan hóp og reyna að bæta liðið. Þetta er auðvitað mjög grátleg staða hjá okkur núna en við verðum bara að einbeita okkur að því að bæta liðið og þá einstaklinga sem hér eru. Búa til gott lið hérna í Grafarvoginum, hvort sem það verður í efstu eða næstefstu deild. Mótið er ekki búið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira