Svo virðist sem ákveðið hafi verið að „fela“ löngu innköstin hennar Sveindísar Jane Jónsdóttur í leik Íslands og Lettlands á fimmtudaginn til að koma Svíþjóð í opna skjöldu í leiknum í gær.
Elín Metta Jensen skoraði jöfnunarmark Íslendinga gegn Svíum í gær eftir langt innkast Sveindísar. Lokatölur 1-1.
Eftir leikinn viðurkenndi Caroline Seger, fyrirliði Svíþjóð, að sænska liðið hafi ekki vitað að Sveindís byggi yfir þessum hæfileika, að geta grýtt boltanum langleiðina að vítapunkti. Seger kvartaði jafnframt yfir löngu innköstunum og að þau tækju of langan tíma.
Eftir leikinn í gær töluðu Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar hennar um löngu innköstin hennar Sveindísar og að landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson hafi ekki sýnt á þau spil gegn Lettum á fimmtudaginn.
„Þetta er vopn sem við eigum inni. Það var mjög klókt hjá Jóni Þór að gefa þetta ekki upp í síðasta leik og nota þetta núna,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir.
„Þetta skilaði marki og hefði getað skilað fleiri mörkum. Þetta er eins og að fá horn,“ sagði Bára og bætti við að Keflvíkingurinn Sveindís hlyti að hafa æft körfubolta á sínum yngri árum.
Sveindís lék sinn fyrsta leik fyrir A-landsliðið gegn Lettum á fimmtudaginn og skoraði tvö mörk. Hún bætti einni stoðsendingu við gegn Svíum og það er varla hægt að biðja um mikið betri byrjun á landsliðsferlinum.