Íslenski boltinn

Földu löngu innköstin hennar Sveindísar gegn Lettum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Löng innköst Sveindísar Jane Jónsdóttur sköpuðu mikla hættu upp við mark Svía í gær.
Löng innköst Sveindísar Jane Jónsdóttur sköpuðu mikla hættu upp við mark Svía í gær. vísir/vilhelm

Svo virðist sem ákveðið hafi verið að „fela“ löngu innköstin hennar Sveindísar Jane Jónsdóttur í leik Íslands og Lettlands á fimmtudaginn til að koma Svíþjóð í opna skjöldu í leiknum í gær.

Elín Metta Jensen skoraði jöfnunarmark Íslendinga gegn Svíum í gær eftir langt innkast Sveindísar. Lokatölur 1-1.

Eftir leikinn viðurkenndi Caroline Seger, fyrirliði Svíþjóð, að sænska liðið hafi ekki vitað að Sveindís byggi yfir þessum hæfileika, að geta grýtt boltanum langleiðina að vítapunkti. Seger kvartaði jafnframt yfir löngu innköstunum og að þau tækju of langan tíma.

Eftir leikinn í gær töluðu Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar hennar um löngu innköstin hennar Sveindísar og að landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson hafi ekki sýnt á þau spil gegn Lettum á fimmtudaginn.

„Þetta er vopn sem við eigum inni. Það var mjög klókt hjá Jóni Þór að gefa þetta ekki upp í síðasta leik og nota þetta núna,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir.

„Þetta skilaði marki og hefði getað skilað fleiri mörkum. Þetta er eins og að fá horn,“ sagði Bára og bætti við að Keflvíkingurinn Sveindís hlyti að hafa æft körfubolta á sínum yngri árum.

Sveindís lék sinn fyrsta leik fyrir A-landsliðið gegn Lettum á fimmtudaginn og skoraði tvö mörk. Hún bætti einni stoðsendingu við gegn Svíum og það er varla hægt að biðja um mikið betri byrjun á landsliðsferlinum.

Klippa: Umræða um löngu innköstin

Tengdar fréttir

Við ætlum að fara út og sækja þrjú stig

Dagný Brynjarsdóttir segir að íslenska liðið ætli sér einfaldlega að sækja þrjú stig gegn Svíum á útivelli eftir 1-1 jafntefli liðanna á Laugardalsvelli í kvöld.

Skil ekki hvað hún er að dæma á

Glódís Perla Viggósdóttir var ekki par sátt með markið sem var dæmt af Íslandi í fyrri hálfleik gegn Svíum í kvöld. Þá var hún svekkt með að íslenska liðið hafi ekki náð í þrjú stig gegn ógnarsterku liði Svía.

Sveindís: Besta lið sem ég hef spilað á móti

„Eftir hvernig leikurinn spilaðist þá erum við svekktar að hafa náð bara einu stigi,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, eftir 1-1 jafnteflið gegn Svíþjóð í kvöld.

Hundfúll að hafa ekki unnið þennan leik

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska landsliðsins, vildi fá þrjú stig úr leik Íslands gegn sterku liði Svía á Laugardalsvelli í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli eftir að sænska liðið komst yfir um miðbik fyrri hálfleiks.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.