Fótbolti

Fyrir­liði Svía um inn­köst Svein­dísar: „Ekki fót­bolti eins og ég vil hafa hann“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fyrirliðinn og Sveindís í baráttunni í kvöld.
Fyrirliðinn og Sveindís í baráttunni í kvöld. vísir/vilhelm

Caroline Seger, fyrirliði Svía, sagði á blaðamannafundi eftir jafnteflið gegn Íslandi að liðið hefði ekki vitað mikið um Sveindísi Jane Jónsdóttur fyrir leikinn gegn Íslendingunum í kvöld.

Hún sagði þó að löngu innköst liðsins hefðu ekki komið sænska liðinu sérstaklega á óvart.

„Íslenska liðið hefur verið með Sif Atladóttur í þessu hlutverki. Við vorum ekki alveg með á hreinu að þessi gæti kastað svona langt. Við vorum svolítið óheppnar, við lásum boltann vitlaust og síðan skoppaði hann skringilega. Leiðinlegt að þetta hafi endað með marki auðvitað,” sagði Seger um jöfnunarmark Íslendinga.

Sveindís vakti augljóslega athygli sænsku blaðamannanna því þeir spurðu Seger enn frekar út í leikmanninn unga sem var aðeins að leika sinn annan landsleik í kvöld.

„Við vissum ekki svo mikið um hana fyrir leikinn, hún hefur ekki spilað mikið þannig að við höfðum ekki mikla möguleika á því að að skoða hennar leik. Á köflum fannst mér við láta hana líta vel út, hún er sterk með boltann og er síðan með þetta vopn í innköstunum.”

„Það fór oft ansi langur tími í innköstin, mikið af dauðum tíma og það fara margar leikmínútur í þessi föstu leikatriði. Það er ekki fótbolti eins og ég vil hafa hann.”

Eftir jafnteflið eru liðin enn jöfn á toppi riðilsins en þau mætast í Gautaborg í október.

„Við eigum leikinn eftir á heimavelli. Við hefðum viljað hafa yfirhöndina fyrir þann leik en það er eins og það er. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir næstu leiki og mæta klárar til leiks þá.”


Tengdar fréttir

Skil ekki hvað hún er að dæma á

Glódís Perla Viggósdóttir var ekki par sátt með markið sem var dæmt af Íslandi í fyrri hálfleik gegn Svíum í kvöld. Þá var hún svekkt með að íslenska liðið hafi ekki náð í þrjú stig gegn ógnarsterku liði Svía.

Sveindís: Besta lið sem ég hef spilað á móti

„Eftir hvernig leikurinn spilaðist þá erum við svekktar að hafa náð bara einu stigi,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, eftir 1-1 jafnteflið gegn Svíþjóð í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.