Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - KR 0-2 | Hreðjartak KR á Blikum

Árni Jóhannsson skrifar
KR - Breiðablik, Pepsi max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti.
KR - Breiðablik, Pepsi max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Leikur Blika og KR var titlaður sem stórleikur enda lið sem hafa mikinn metnað fyrir því að vinna fótboltaleiki þó það hafi ekki gengið sem skildi undanfarið. Leikurinn var hluti af 17. umferð Pepsi Max deildar karla, fór fram á Kópavogsvelli og endaði með sigri KR 2-0.

Leikurinn var mjög jafn allan leikinn og áttu liðin erfitt með að koma sér í góð marktækifæri en snerting leikmanna á boltanum var æði þung á köflum. Blikar áttu erfitt með að temja boltann á seinasta þriðjungi þegar tekið var á móti sendingum og KR-ingar áttu erfitt með að senda boltann á samherja til að koma sér í færi.

Leikurinn var samt sem áður vel leikinn og þá var hann vel dæmdur einnig en Erlendur Eiríksson hafði góð tök á honum heilt yfir. Blikar eru þó sársvekktir að hann hafi ekki dæmt víti þegar Arnór Sveinn togaði Thomas Mikkelsen niður en þar hefði verið hægt að dæma víti en líka sleppa því.

Tvö mörk litu dagsins ljós í sitt hvorum hálfleiknum og voru þau bæði skoruð af KR. Í fyrri hálfleik lyfti Stefán Árni Geirsson boltanum inn fyrir vörn Blika á Ægi Jarl sem lyfti síðan boltanum glæsilega yfir Anton Ara sem kom sprettandi út úr markinu. Í seinni hálfleik töpuðu Breiðablik boltanum á miðjunni sem gaf Óskari Erni tækifæri til að sprett alla leið inn í teig heimamanna. Viktor Örn Margeirsson gerði vel í að draga Óskar upp en það tókst ekki betur en svo að hann potaði boltanum í eigið mark.

Eftir það fjaraði leikurinn út en hann hafði verið spilaður af ákafa og af mikilli keppni.

Afhverju vann KR? KR hafði leikinn nákvæmlega þar sem þeir vildu hann. Gátu legið til baka og sprengt upp þegar færi gafst til. Þeir náðu stundum að pressa á Blikana þannig að úr urðu færi og að lokum nýttu þeir tvö færi til að klára leikinn.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk bölvanlega að skapa sér marktækifæri en það var það eina sem vantaði í leikinn voru fleiri færi. Þá gekk þeim erfiðlega á köflum að hemja boltannn á blautum velli og í dálitlum vind.

Bestir á vellinum?

Liðin voru mjög jöfn að gæðum í dag að mati blaðamanns. Varnarlínurnar voru mjög þéttar og skiluðu sinni vakt vel og þá voru ágætis spilkaflar framar á vellinum þó það vantaði herslumuninn upp á að skapa færin. Ég vel Óskar Örn Hauksson mann leiksins. Hann skilaði góðri vakt upp á topp og var valdur að seinna marki KR sem tryggði sigurinn.

Hvað næst?

Liðin eru núna jöfn að stigum en KR sæti ofar í fjórða sæti á markamun. Breiðablik mun taka á móti Stjörnunni í nágrannaslag á fimmtudag og því lítill tími til ða sleikja sárin en sá leikur er áhugaverður fyrir þær sakir að bæði lið mæta særð til leiks. KR tekur svo á móti grönnum sínum í Gróttu og er í dauðafæri á að sauma saman tvo sigra.

Óskar Örn: Mikill höfðingi sem ég er að taka fram úr og ég er mjög stoltur af því

Leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar var mjög ánægður með dagsverk sinna manna þegar KR bar vann Breiðablik á Kópavogsvelli fyrr í kvöld 0-2. Ánægjan stafaði mikið til af þeirri staðreynd að KR voru fáliðaðir út af sóttvarnarástæðum og þjappaði hópurinn sér vel saman til að ná í stigin þrjú.

„Við vorum með fín tök á þessum leik. Við stjórnuðum honum heilt yfir var þetta flottur leikur. Þeir sem voru eftir og voru til taks þjöppuðu sér saman og við töluðum um það fyrir leikinn að við þyrftum að gera það. Ég skil ekki alveg þessar sóttvarnarreglur og það allt en við bara rétt náðum í lið og það var nóg í dag“.

Óskar Örn var því næst spurður út í tilfinningar sínar eftir leik þar sem hann fór á topp listans yfir leikjahæstu menn í sögu efstu deildar. Óskar hefur nú spilað 322 leik en hann tók fram úr Birki Kristinnssyni markverði sem spilaði 321.

„Eins og ég hef sagt áður þá er þetta eitthvað sem maður horfir í þegar maður er hættur. Ég á vonandi eftir að spila fullt af leikjum. Mikill höfðingi sem ég er að taka fram úr og ég er mjög stoltur af því“.

Óskar var með nokkra mun yngri menn með sér í hóp í dag en hann mun örugglega geta miðlað reynslu sinni til þeirra enda gert allt í íslenskum bolta.

„Jú það er rétt. Maður hefur upplifað ansi margt í þessu það er ekki spurning“, sagði Óskar hógværðin uppmáluð.

Rúnar Kristinnsson: Ég er mjög stoltur af drengjunum

„Þetta var nákvæmlega eins og við settum þetta upp. Strákarnir voru gríðarlega samviskusamir og gerðu alla hluti frábærlega. Ég er ofboðslega stoltur af liðinu mínu og þetta er frábær sigur á móti frábæru Breiðabliksliði og höldum hreinu og gefum ekki mörg færi á okkur. Ég er mjög stoltur af drengjunum“, sagði ánægður Rúnar Kristinsson eftir góðan sigur á Breiðblik fyrr í kvöld.

Rúnar var spurður að því hvað sigurinn gerði fyrir liðið hans í deildinni en KR eru líklega búnir að missa af tækifærinu á því að verja titilinn.

„Sigurinn heldur okkur bara á lífi í þessu. Það er fullt að spila um. Valsmenn eru komnir með gríðarlega góða forystu og maður sér ekki að mörg lið séu að fara að stoppa þá en það barátta um evrópusæti og ýmislegt annað. Við sættum okkur ekki við það að vera neðarlega í deildinni. KR vill vera í topp baráttu og við þurfum að einbeita okkur að því að taka einn leik í einu sem hefur gengið vel. Þrátt fyrir töp undanfarið þá erum við að spila vel og við þurfum að halda áfram og gera það sem við gerum best og þá erum við mjög góðir“.

KR var fáliðað á varamannabekknum og var Rúnar spurður út í afhverju svo væri en þeir eru í vinnustaðasóttkví eins og staðan er í dag en fengu að spila leikinn.

„KR er í sóttkví og svo meiddust tveir leikmenn í ferðalaginu til Eistlands og við máttum ekki kalla leikmenn inn. Við fengum ekki að fresta leiknum, fengum bara nei og létum okkur hafa það að spila leikinn. Það þarf náttúrlega að klára þetta mót og KSÍ gaf okkur ekki leyfi til að fresta leiknum en við viljum ekkert væla yfir því. Svona er bara ástandið og við þurfum að sætta okkur við það“.

Óskar Hrafn: Stóri munurinn er skipulagið

Þjálfari Breiðabliks tók sér góðar 15 sekúndur í að hugsa sig um áður en hann svaraði spurningu blaðamanns um hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld. Hans menn töpuðu í þriðja skipti í sumar og virðast ekki hafa neitt í ríkjandi Íslandsmeistara.

„KR-ingar eru með gott lið. Eru agaðir og ólíkt okkur þá halda þeir skipulaginu sínu í 90 mínútur en við hinsvegar höfum þá tilhneigingu, þegar hlutirnir ganga ekki alveg eins og okkur langar til þess að þeir gangi, þá höfum við tilhneigingu til þess að fara einhverja aðra hluti. Fara út úr skipulaginu, vera óagaðir.“

„Það er stóri munurinn á þessum tveimur liðum. Annað liðið hefur trú á skipulaginu sínu og hinir eru, sem sagt við, erum helvíti fljótir að fara út úr því sem er lagt fyrir. Við áttum fyrri hálfleikinn eins og hann lagði sig en þú færð ofboðslega lítið fyrir að eiga einn hálfleik þar sem þú skorar ekki. Það er lítið annað hægt að gera en að óska KR til hamingju með sigurinn, þeir sýndu karakter eftir erfiðara prógrammi heldur en við. Eru þreyttir eftir Eistlandsferð og vinnustaðasóttkví þannig að þetta var bara vel gert hjá þeim.“

Óskar var þá spurður að því að vinnan fyrir næsta tímabil væri að kenna mönnum að halda skipulagi því nú væru þeir búnir að stimpla sig algjörlega út úr titilbaráttunni.

„Já já, stimpla okkur út. Ef við við getum ekki haldið skipulagi í 90 mínútur þá erum við væntanlega búnir að stimpla okkur út úr öllu og hvaða baráttu sem þú vilt kalla það. Það eru svo sem átta leikir eftir og við höfum ekki langan tíma til að syrgja þessar 90 mínútur. Við þurfum að rífa okkur upp og vera klárir þegar Stjarnan kemur í heimsókn á fimmtudaginn. Það er samt alveg ljóst að við þurfum að vera agaðari, þolinmóðari og þá sérstaklega á móti þessum liðum sem eru í kringum okkur og ef við erum það ekki þá endar þetta bara eins og þetta endaði í kvöld og seinast þegar KR-ingar voru í heimsókn og á sunnudaginn seinasta. Við munum tapa leikjum ef við höldum ekki skipulagi og höldum ekki aga.“

Að lokum var Óskar spurður út í það hvort hann gæti tekið eitthvað jákvætt út úr leiknum.

„Já já, það er alveg hægt að taka fyrri hálfleikinn út á vellinum. Við vorum vel spilandi og vorum að opna þá auðveldlega og fengum færi sem við nýttum ekki. Bragurinn var góður á okkur í fyrri hálfleik. Vandamálið er bara að fótboltaleikur er 90 mínútur og það gefur manni ekkert að vera fínn í 45. Með því að missa þolinmæðina og missa agann og missa skipulagið þá færðum við KR yfirhöndina. Eitthvað sem þeir þáðu með þökkum og þegar á öllu er á botninn hvolft þá var þetta bara sanngjarn sigur og lítið meira um það að segja“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira