Íslenski boltinn

Augna­blik og Kefla­vík með úti­sigra | Þurfti að færa leik frá Sel­tjarnar­nesi í Kópavog

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Augnablik vann góðan sigur í kvöld.
Augnablik vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Sigurbjörn Óskarsson

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Augnablik vann góðan 3-1 sigur á Víking í Fossvoginum. Keflavík vann Gróttu 3-2 á útivelli en leikurinn fór fram í Kórnum í Kópavogi frekar en á Seltjarnarnesi.

Nágrannaliðin Víkingur og Augnablik mættust í Fossvoginum í kvöld. Birta Birgisdóttir kom gestunum úr Kóapvogi yfir strax á 12. mínútu. Aðeins þremur mínútum síðar hafði Nadía Atladóttir hins vegar jafnað metin. Hildur María Jónasdóttir sá til þess að Augnablik var 2-1 yfir í hálfleik og strax í upphafi þess síðari skoraði Ísafold Þórhallsdóttir. Staðan því orðin 3-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik en Augnablik er nú með 18 stig í 6. sæti á meðan Víkingur er sæti neðar með 15 stig. Þá á Augnablik leik til góða.

Líkt og kom fram á Fótbolti.net fyrr í kvöld þurfti að færa leik Gróttu og Keflavíkur frá Seltjarnarnesi yfir í Kópavogi þar sem flóðljósin á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi virkuðu ekki. Fór það svo að Keflavík vann leikinn á endanum 3-2.

Keflvíkingar því sem fyrr í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir toppliði Tindastóls, á meðan Grótta er í 4. sæti.

Markaskorarar fengnir af Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×