Erlent

Hjaltlendingar stíga skref til sjálfstæðis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Leirvík er höfuðstaður Hjaltlandseyja. Á skiltinu má sjá nafnið Leirvík skrifað samkvæmt íslenskum rithætti.
Leirvík er höfuðstaður Hjaltlandseyja. Á skiltinu má sjá nafnið Leirvík skrifað samkvæmt íslenskum rithætti. Getty/Andrew Milligan.

Héraðsráð Hjaltlandseyja hefur samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að kanna möguleika á „aukinni fjárhags- og pólitískri sjálfsstjórn“ frá Skotlandi. Af 22 ráðsmönnum samþykktu 18 tillöguna og aðeins 2 voru á móti.

Óánægja með niðurskurð fjárframlaga til eyjanna og lítil pólitísk áhrif eru sögð helsta ástæðan. Skoða á meðal annars hvort Hjaltland geti fengið svipaða stöðu innan bresku krúnunnar og eyjarnar Jersey og Mön, fremur en fullt sjálfstæði. Samkvæmt frétt Sky News þýddi þetta að Hjaltlendingar héldu sjálfir tekjum af olíulindum í lögsögu eyjanna.

Hjaltlandseyjar eru nyrsti eyjaklasi Bretlandseyja. Þar búa um 23 þúsund manns, þar af sjö þúsund manns í höfuðstaðnum Leirvík. Af um eitthundrað eyjum eru sextán byggðar.

Skjaldarmerki Hjaltlandseyja. Takið eftir kjörorðum eyjanna. Svo náskyld er menningin að íslenska er notuð í skjaldarmerkinu.

Eyjarnar voru áður hluti af norrænu áhrifasvæði og allt þar til fyrir um tvöhundruð árum töluðu Hjaltlendingar vest-norrænt tungumál sem líktist mest íslensku og færeysku. Skýrasta dæmið er skjaldarmerki eyjanna sem enn er með tilvitnun í Njálssögu með íslenskum rithætti „Með lögum skal land byggja“. 

Þá er fáni eyjanna „hvítbláinn“, blár og hvítur krossfáni í anda norrænu ríkjanna.

Fáni Hjaltlandseyja er blár með hvítum krossi, sá sami og margir Íslendingar vildu að yrði fáni Íslands.

Hjaltlandseyjar urðu hluti af Skotlandi á 15. öld og fylgdu síðan Skotlandi inn í breska konungsdæmið árið 1707. Fiskveiðar eru helsta atvinnugreinin en miklir olíufundir í Norðursjó eftir 1970 hafa stóreflt efnahag eyjanna.

Hjaltlendingar á árlegri víkingahátíð.Getty/Andrew Milligan.

Hjaltlendingar minnast árlega hinna norrænu róta með vetrarhátíð, Up Helly Aa, þar sem menn klæða sig upp að hætti víkinga og brenna svo víkingaskip á báli.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.