Enski boltinn

Vesen á Greenwood sem heldur á­fram að koma sér á for­síðurnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Greenwood á Laugardalsvelli.
Greenwood á Laugardalsvelli. vísir/getty

Mason Greenwood, framherji Manchester United og enska landsliðsins, hefur aftur komið sér á forsíður ensku dagblaðanna.

Götublaðið The Sun birti í morgun myndir af Greenwood taka inn nituroxíð, hláturgas, í teiti á dögunum en það er þekkt á Englandi sem „hippy crack“. Hann lét efnið inn í blöðru og tók svo efnið í gegnum blöðruna.

Framherjinn var fljótur að senda frá sér yfirlýsingu vegna myndanna en mikið fjaðrafok hefur verið í kringum Greenwood að undanförnu.

„Ég mæli stranglega gegn því að aðrir fylgi fordæmi mínu. Ég hef nú kynnst því hversu áhættusamt er að gera þetta og bara að prufa þetta, eins og sést á þessum sögulegu myndum, var léleg ákvörðun frá minni hlið.“

„Sem átján ára piltur er ég alltaf að læra. Hins vegar hef ég lært þessa vikuna að ég er dæmdur meira útaf ferlinum mínum og ég verð að virða það í framtíðinni. Ég er ákveðinn í að sýna traust til stjórans og þjálfaranna,“ sagði Greenwood.

Þetta kemur í sömu viku og upp komst upp um Greenwood og samherja hans í enska landsliðinu, Phil Foden, að þeir hafi boðið tveimur íslenskum stelpum inn á herbergi enska landsliðsins.

Þeir voru síðar meir sendir úr enska hópnum og hefur málið vakið mikla athygli, bæði hérlendis og úti í Englandi, en báðir hafa beðist afsökunar á framferði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×