Ísland vann stórsigur á Lettlandi með níu mörkum gegn engu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í gær. Staðan var 6-0 í hálfleik.
Dagný Brynjarsdóttir spilaði bara fyrri hálfleik en þurfti ekki meiri tíma til að skora sína fyrstu þrennu fyrir landsliðið.
Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta landsleik og skoraði tvö mörk. Samherjar hennar í Breiðabliki, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, voru einnig á skotskónum.
Elín Metta Jensen kom íslenska liðinu á bragðið eftir aðeins 28 sekúndur. Hún hefur skorað í öllum leikjum Íslands í undankeppninni. Þá gerði Karline Miksone, leikmaður ÍBV, sjálfsmark.
Ísland er með fullt hús stiga í F-riðli undankeppninnar, líkt og Svíþjóð sem er einmitt næsti andstæðingur íslenska liðsins. Íslendingar og Svíar mætast á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn og í Gautaborg 27. október.
Mörkin úr leik Íslands og Lettlands má sjá hér fyrir neðan.