Íslenski boltinn

Einkunnir Íslands: Dagný með þrennu í fyrri hálfleik og ungu Blikarnir frábærir

Íþróttadeild skrifar
Dagný Brynjarsdóttir þurfti aðeins fyrri hálfleikinn til að skora þrennu.
Dagný Brynjarsdóttir þurfti aðeins fyrri hálfleikinn til að skora þrennu. vísir/vilhelm

Ísland rúllaði yfir Lettland, 9-0, í undankeppni EM í kvöld. Íslendingar hafa unnið alla leiki sína í undankeppninni.

Eins og tölurnar gefa til kynna var íslenska liðið miklu sterkara liðið. Ísland var 6-0 yfir í hálfleik.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði þrennu, sína fyrstu fyrir íslenska landsliðið, í fyrri hálfleik og lék afar vel.

Ungu Blikarnir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir skínandi góðan leik. Sú síðastnefnda skoraði tvö mörk í sínum fyrsta landsleik.

Barbára Sól Gísladóttir kom inn á í hálfleik í sínum fyrsta landsleik og lagði upp tvö mörk.

Einkunnagjöf Vísis má sjá hér fyrir neðan.

Sandra Sigurðardóttir, markvörður 6

Best staðsetti áhorfandinn á vellinum. Hafði ekkert að gera.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, hægri bakvörður 8

Lagði upp annað og sjötta markið. Fékk mikinn tíma á hægri kantinum í fyrri hálfleik og nýtti hann til að koma með hættulegar fyrirgjafir inn á teiginn. Lék á miðjunni í seinni hálfleik og fórst það vel úr hendi eins og búast mátti við.

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 7

Frábærar sendingar og gríðarlega mikilvæg í uppspili íslenska liðsins.

Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður 7

Átti náðugan dag í vörninni. Var minna í boltanum en Glódís. Fór meidd af velli í upphafi seinni hálfleiks. Verður vonandi orðinn klár fyrir leikinn gegn Svíum á þriðjudaginn.

Hallbera Gísladóttir, vinstri bakvörður 7

Hafði ekkert að gera í vörninni en fyrirgjafir Skagakonunnar voru hættulegar að venju.

Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður 7

Fyrirliðinn stjórnaði umferðinni á miðjunni af öryggi og lét boltann ganga vel.

Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður 8

Lagði upp fjórða markið með frábærri fyrirgjöf eftir skemmtilega gabbhreyfingu. Átti skot í slá þegar tíu mínútur voru til leiksloka og skoraði áttunda mark Íslands með nákvæmu skoti eftir gott hlaup inn á teiginn.

Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður 9 - Maður leiksins

Skoraði þrennu í fyrri hálfleik, sína fyrstu fyrir landsliðið. Gríðarlega ógnandi og tók góð hlaup inn í teiginn. Frábær í loftinu og skoraði tvö mörk með skalla. Var tekin af velli í hálfleik.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, hægri kantmaður 8

Virkilega góð í fyrsta keppnisleiknum með landsliðinu. Átti frábærar fyrirgjafir sem sköpuðu fyrsta og þriðja markið og skoraði svo níunda markið. Kórónaði þar með frábæran leik sinn.

Sveindís Jane Jónsdóttir, vinstri kantmaður 8

Skoraði tvisvar sinnum í sínum fyrsta landsleik. Fyrstu landsliðsmörkin af mörgum. Var óstöðvandi í fyrri hálfleik en aðeins rólegri í þeim seinni. Gerir tilkall til að byrja leikinn gegn Svíþjóð á þriðjudaginn.

Elín Metta Jensen, framherji 7

Hélt upp á 50. landsleikinn sinn með því að koma Íslandi yfir eftir 28 sekúndur með sínu fimmtánda landsliðsmarki. Hefur verið meira áberandi í leikjum í þessari undankeppni en í kvöld.

Varamenn:

Barbára Sól Gísladóttir - (Kom inn á fyrir Dagnýju á 46. mínútu) 7 

Kom inn á í hálfleik og lék sinn fyrsta landsleik í stöðu hægri bakvarðar. Lagði upp sjöunda og áttunda mark Íslands með góðum fyrirgjöfum.

Guðný Árnadóttir - (Kom inn á fyrir Ingibjörgu á 55. mínútu) 6

Sýndi nokkrum sinnum þann ótrúlega mikla hraða sem hún býr yfir.

Hlín Eiríksdóttir - (Kom inn á fyrir Söru Björk á 69. mínútu) 6

Lagði upp níunda markið með góðri fyrirgjöf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×