Gylfi Þór allt í öllu er Everton flaug áfram

Gylfi Þór átti frábæran leik í kvöld er Everton flaug inn í 32-liða úrslit enska deildarbikarsins.
Gylfi Þór átti frábæran leik í kvöld er Everton flaug inn í 32-liða úrslit enska deildarbikarsins. Jon Super/Getty Images

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton ásamt því að bera fyrirliðabandið er liðið lagði Salford City 3-0 í enska deildarbikarnum í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson hóf deildarleikinn gegn Tottenham Hotspur um síðustu helgi á bekknum. Carlo Ancelotti – þjálfari liðsins – gerði tíu breytingar og meðal þeirra sem komu inn var Gylfi Þór. Var hann fyrirliði liðsins í kvöld er Salford City mætti á Goodison Park í 64-liða úrslitum enska deildarbikarsins.

Strax á 8. mínútu fengu heimamenn hornspyrnu sem Gylfi tók. Spyrnan var góð og flaug beint á kollinn á Michael Keane sem fann sér svæði milli varnarmanna Salford sem ákváðu að dekka svæði frekar en menn í föstum leikatriðum í kvöld.

Skallinn frá Keane var góður og staðan orðin 1-0 heimamönnum í vil. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik máttu bersýnilega sjá muninn á liðunum.

Gylfi átti frábæra sendingu sem Moise Kean skallaði í slá strax í upphafi síðari hálfleiks. Það var svo á 73. mínútu sem Gylfi sjálfur gerði svo gott sem út um leikinn þegar hann renndi fyrirgjöf Anthony Gordon í netið. Var þetta 100. mark Gylfa á Englandi.

Hann var svo næstum búinn að bæta því 101. í safnið er hann átti gott skot í stöngina rúmum tíu mínútum síðar. Þriðja mark Everton kom á endanum en það gerði Kean af vítapunktinum þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Everton skaut svo tvívegis í stöng til viðbótar áður en dómari leiksins flautaði til leiksloka. Sanngjarn 3-0 sigur Everton staðreynd og vonandi að frammistaða Gylfa Þórs gefi Ancelotti eitthvað til að hugsa um fyrir næsta deildarleik liðsins.

Everton mætir Fleetwood Town í 32-liða úrslitum enska deildarbikarsins þann 22. september.

32-liða úrslit

Bristol City/Northampton Town - Aston Villa

Chelsea - Barnsley

Fleetwood Town - Everton

Fulham - Sheffield Wednesday

Leicester City - Arsenal

Leyton Orient - Tottenham Hotspur

Luton Town - Manchester United

Manchester City - AFC Bournemouth

Millwall - Burnley/Sheffield United

Morecambe - Newcastle United

Newport County - Watford

Preston North End - Brighton/Portsmouth

West Brom - Brentford

West Ham United - Leeds United

Wolves/Stoke City - Gillingham

Allir leikirnir fara fram þann 22. september.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira