Erlent

Segir að árás frá Íran yrði svarað þúsundfalt

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Ross D. Franklin

Yfirvöld í Íran hafa varað Bandaríkin við því að „gera mistök“ eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði Íran á Twitter. Það gerði forsetinn vegna fregna um að Íranir ætluðu mögulega að reyna að ráða sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Afríku af dögum.

Trump sagði að hvers kyns árás frá Íran yrði svarað þúsundfalt.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa vitnað í skýrslur frá leyniþjónustum Bandaríkjanna um að Íranir hygðu á hefndir vegna dauða herforingjans Qassem Soleimani, sem dó í loftárás Bandaríkjanna í Írak í janúar.

Meðal þeirra leiða sem eru sagðar vera til skoðunar í Íran er að bana áðurnefndum sendiherra, Lana Marks. Í frétt Politico segir að embættismenn í Bandaríkjunum hafi vitað lengi af ógn gegn Marks en sú ógn hafi verið að skýrast og raungerast á undanförnum vikum.

Sendiráð Íran í Suður-Afríku er sagt koma að málinu.

Marks var skipuð í embætti í október. Hún hefur þekkt Trump í rúma tvo áratugi og hefur lengi verið meðlimur í Mar-a-Lago, einkaklúbbi Trump í Flórída. Tilnefning hennar var harðlega gagnrýnd af Demókrötum. Hún fæddist í Suður-Afríku og talar bæði Afrikaans og Xhosa.

Ekki liggur fyrir af hverju sjónir Írana beindust gegn Marks en talið er að vinátta hennar við Trump komi þar að máli.

Nokkrum dögum eftir að Soleimani var felldur skutu Íranir fjölda eldflauga að herstöð Bandaríkjanna í Írak. Trump ákvað að hefna ekki fyrir það en beitti í stað viðskiptaþvingunum gegn Íran. Forsvarsmenn herafla Bandaríkjanna og aðrir vöruðu þó við því að Íranir myndu leita annarra leiða til að hefna sín.

Mehr fréttaveitan, sem er í eigu íranska ríkisins, hefur eftir Saeed Khatibzadeh, talsmanni Utanríkisráðuneytis Íran, að fregnirnar af meintum undirbúningi fyrir morð á sendiherranum áðurnefnda séu lygar. Með þeim séu Bandaríkin að reyna að einangra Íran á alþjóðavettvangi.

Þá segir Khatibzadeh að það sé undarlegt að maður eins og Trump, sem hafi aðgang að leyniþjónustum Bandaríkjanna, reiði sig á fréttaflutning fjölmiðla sem hann hafi ítrekað sagt lygara og falska.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.