Erlent

Barna­barn fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta vill láta grafa upp líkams­leifar afa síns

Atli Ísleifsson skrifar
Warren Harding, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Calvin Coolidge varaforseti.
Warren Harding, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Calvin Coolidge varaforseti. Getty

Barnabarn Bandaríkjaforsetans fyrrverandi, Warren G. Harding, hefur leitað til dómstóla og krafist þess að líkamsleifar Harding verði grafnar upp og lífsýni tekið til að sanna fjölskyldutengsl þeirra.

BBC segir frá því að barnabarnið, James Blaesing, hafi sagt fyrir dómi að hann vilji færa vísindalegar sönnur á tengslin. Aðrir í fjölskyldu Harding hafa lagst gegn slíkum hugmyndum og segja viðurkennt að Elizabeth Ann Blaesing, móðir James, hafi í raun verið dóttir Harding og Nan Britton, hjákonu forsetans.

Harding átti í ástarsambandi utan hjónabands við Britton á árunum 1921 til 1923, fyrir og á meðan á embættistíð Harding stóð. Harding var 29. forseti Bandaríkjana og lést í embætti eftir að hafa fengið hjartaáfall árið 1923.

Mæðgurnar Nan Brotton og Elizabeth Ann Blaesing.Getty

Gert kunnugt að Harding gengnum

Upp komst um ástarsamband Harding og Britton eftir dag forsetans þegar Britton greindi frá því í bók sinni frá árinu 1927, Dóttur forsetans. Harding eignaðist ekki önnur börn. Lífsýnarannsókn árið 2015 leiddi loks í ljós tengsl milli James Blaesing og tveggja annarra úr fjölskyldu Harding.

Þess er minnst í ár að hundrað ár eru nú liðin frá því að Harding tók við forsetaembættinu og hafa af því tilefni verið gerðar endurbætur á safni tileinkuðu Harding í Marion í Ohio, fæðingarborg forsetans.

James Blaesing segir að í safninu hafi honum og móður hans hins vegar ekki verið gerð nægilega góð skil. Saga þeirra eigi skilið að vera þar sögð. 

„Ég tók prófið og við sögðum opinberlega frá því árið 2015. Nú er árið 2020 og enginn hefur beðið mig um að gera nokkurn skapaðan hlut,“ segir Blaesing sem vonast til að hægt verði að breyta því með því að færa líffræðilegar sönnur á tengslin við Harding.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×