Umfjöllun og viðtöl: FH - Breiðablik 3-1 | FH-ingar nálgast toppsætið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Steven Lennon og félagar í FH standa í ströngu.
Steven Lennon og félagar í FH standa í ströngu. vísir/hag

FH-ingar stimpluðu sig inn í baráttuna um efstu sætin í Pepsi Max-deildinni með sigri á Breiðablik í dag. Lokatölur 3-1 en með sigrinum jafnaði FH lið Breiðabliks að stigum og eiga þar að auki leik til góða.

Blikar voru sterkari aðilinn í upphafi og áttu nokkrar tilraunir að marki á fyrstu mínútum leiksins án þess þó að skapa sér verulega hættuleg færi. Gestirnir voru meira með boltann en FH-liðið vel skipulagt.

Baráttan var mikil og augljóst að það var mikið í húfi. Egill Arnar Sigurþórsson dómari gaf fimm gul spjöld í fyrri hálfleiknum og á köflum komst lítið flæði í leikinn þar sem mikið var flautað. Það hentaði léttleikandi Breiðabliksliði illa sem vill spila hratt.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til hálfleiks skoraði Steven Lennon fyrsta mark leiksins þegar lítið var búið að vera í gangi. Hann fékk boltann innfyrir vörnina, Damir Muminovic virtist aðeins misreikna boltann og Lennon kláraði frábærlega.

Breiðablik var þó ekki lengi að svara. Á 45.mínútu fékk Viktor Karl Einarsson frábæra sendingu innfyrir vörnina frá fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni og kláraði vel á nærhornið framhjá Gunnari Nielsen. Staðan jöfn í hálfleik.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. FH-ingar byrjuðu hálfleikinn reyndar af krafti en annars voru það Blikar sem voru meira með boltann. Það vantaði hins vegar mikið upp á sóknarleik getanna í dag. Þeir voru mistækir á síðasta þriðjungi vallarins, komu Thomas Mikkelsen aldrei inn í leikinn og nýttu föst leikatriði illa.

Á 77.mínútu kom síðan annað mark FH og auðvitað var það Steven Lennon sem skoraði. Hann fékk frábæra sendingu frá Eggerti Gunnþóri Jónssyni, var einn á auðum sjó og kláraði vel í gegnum klofið á Antoni Ara markverði Blika.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna en voru aldrei neitt sérstaklega nálægt því. Á lokaandartökum leiksins átti Anton Ari misheppnaða sendingu sem fór beint á Atla Guðnason og hann lyfti boltanum í markið af löngu færi. Lokatölur 3-1 og leikmenn FH fögnuðu vel í leikslok.

Af hverju vann FH?

Þeir voru gríðarlega vel skipulagðir í dag og vissu upp á hár hvernig þeir ætluðu að verjast á móti þessu Breiðabliksliði. Eggert Gunnþór og Björn Daníel voru duglegir á miðjunni og unnu marga bolta.

Miðverðirnir Guðmann og Guðmundur fengu báðir gult spjald í fyrri hálfleik og maður bjóst við að þeir myndu jafnvel lenda í vandræðum með sóknarmenn Blika í kjölfarið. Annað kom á daginn og vörn FH stóðst heldur betur prófið í dag.

Sóknarlega voru Blikar slakir í leiknum. Þeir áttu margar misheppnaðar sendingar og móttökur þegar þeir gátu komist í góðar stöður og sköpuðu ekki mörg færi.

Þessir stóðu upp úr

Það verður auðvitað að tala um Steven Lennon þó það sé eins og að bera í bakkafullan lækinn. Hann gerði hrikalega vel í báðum mörkunum og er meira en gulls ígildi fyrir þetta FH-lið.

Eggert Gunnþór var öflugur í ruslavinnunni á miðjunni og lagði þar að auki upp mark. Björn Daníel var einnig duglegur og miðverðir FH lentu sjaldan í vandræðum.

Hjá Breiðablik var Viktor Karl mikið í boltanum og skoraði gott mark. Höskuldur átti ágæta spretti en aðrir voru töluvert langt frá sínu besta.

Hvað gekk illa?

Sóknarlega voru Blikar slakir eins og áður segir. Þeir vilja sækja hratt þegar þeir vinna boltann og fengu einhver tækifæri til að keyra á vörn heimamanna. Slakar sendingar og mótttökur gerðu þeim hins vegar erfitt fyrir og hægðu á liðinu. FH-liðið var einnig klókt á brjóta á réttum augnablikum.

Föst leikatriði er eitthvað sem Blikar þurfa einnig að skoða eftir leik. Hornspyrnur, aukaspyrnur og aðrar fyrirgjafir enduðu oftar en ekki á fremsta varnarmanni FH og sköpuðu aldrei hættu.

Þá er spurning hvort Óskar Hrafn þjálfari fari að skoða stöðu Antons Ara í markinu. Vissulega kláraði Lennon sín færi vel en þriðja markið var gjöf.

Hjörvar Hafliðason sagði í Mjólkurbikarmörkunum á Stöð 2 Sport á dögunum að það kæmi honum ekki á óvart ef Anton Ari færi fljótlega á bekkinn og við sjáum hvað setur eftir þennan leik.

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð tekur FH á móti Víkingi og Breiðablik fær Íslandsmeistara KR í heimsókn. Blikar fá þar tækifæri til að hefna fyrir bikartapið í síðustu viku.

Þetta eru tveir mjög áhugaverðir leikir og hver leikur fer að telja meira en vanalega þegar styttist í lok deildarinnar.

Óskar Hrafn: Akkúrat núna erum við skrefi á eftir liðunum sem eru í kringum okkur

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í tapleiknum gegn FH-ingum í dag.

„Ég met frammistöðuna sem ekki nógu góða. Við töpuðum 3-1 og frammistaðan dugði ekki til meira. Mér fannst mörkin þeirra heldur ódýr, einbeitingarleysi í vörninni og svo vorum við ekki nógu beittir á síðasta þriðjungi. Þegar svo er áttu ekkert skilið í leiknum,“ sagði Óskar Hrafn í samtali við Vísi að leik loknum í dag.

Breiðabliksliðið átti í miklum erfiðleikum með að skapa sér hættuleg færi og náðu aldrei að koma Thomas Mikkelsen, framherjanum snjalla, almennilega inn í leikinn.

„Það er óhætt að segja að það hafi verið skortur á gæðum, einbeitingarskortur eða einhver blanda af þessu. Það er ljóst að frammistaðan var ekki nægilega góð,“ sagði Óskar en þrátt fyrir að Mikkelsen hafi lítið sést í leiknum kom heldur óvart þegar honum var skipt útaf í seinni hálfleiknum þegar Blikar voru í leit að marki.

„Thomas er búinn að spila nær allar mínútur í öllum leikjum í deildinni í sumar og þarf hvíld eins og aðrir. Hann var kannski ekki alveg upp á sitt besta og alveg rétt, okkur gekk ekki að koma honum inn í leikinn. Við sáum það í hendi okkar að við gætum varla tapað á því að breyta til þar en það dugði ekki.“

Með sigrinum eru liðin tvö jöfn að stigum en FH búið að leika einum leik minna. Vinni Valsmenn í kvöld eru þeir komnir með átta stigum meira en Breiðablik.

„Ég held að það sé full fljótfært að stimpla okkur út úr titilbaráttunni. Það eru 9 leikir eftir og 27 stig í pottinum, fleiri stig en öll önnur lið en Valur er með. Að því sögðu þá erum við búnir að spila tvo leiki núna á fjórum dögum við lið sem við mátum okkur við og við erum búnir að tapa þeim leikjum.“

„Það segir manni það að akkúrat núna erum við skrefi á eftir liðunum sem eru í kringum okkur og þurfum einhvern veginn að nýta tímann á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum í að nálgast þau.“

Steven Lennon: Ég get bara ekki skorað þessi auðveldu mörk

Steven Lennon var maðurinn á bakvið sigur FH-inga á Blikum í dag. Hann skoraði fyrstu tvö mörk liðsins þar sem hann kláraði frábærlega í bæði skiptin.

„Þetta var stór leikur, bæði lið vildu vinna til að vera nálægt Val. Við höfum ekki unnið hér heima síðan 2012 gegn Breiðablik og vorum búin að skrifa ártalið á vegginn. Þetta var góður leikur.“

„Á móti Breiðablik eru þeir mikið með boltann og varnarlega, með Eggert og Björn Daníel á miðjunni, gerðum við frábærlega og þegar við unnum boltann vorum við fljótir að sækja. Seinna markið mitt var gott dæmi um það. Ég hefði átt að ná þrennunni en við unnum þannig að ég er ánægður,“ bætti Lennon við en hann misnotaði algjört dauðafæri skömmu eftir annað markið sitt.

„Ég get bara ekki skorað þessi auðveldu mörk. Ég er ekki (Thomas) Mikkelsen eða (Patrick) Pedersen, ekki þessi týpíska nía. Ég hefði átt að skora en þetta gerist.“

Sigurinn var mikilvægur fyrir FH-inga sem eru enn með í toppbaráttunni þegar 9 umferðir eru eftir af Pepsi Max-deildinni.

„Við þurfum að vinna þessi lið í kringum okkur. Breiðablik, KR, Val og við eigum stóra leiki framundan. Við tökum einn leik í einu, verum jákvæðir og reynum að halda okkur eins nálægt toppnum og við getum,“ en eftir að Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson tóku við hefur FH-liðið bætt leik sinn og vissulega styrkt sig með sterkum leikmönnum.

„Við erum búnir að ná einhverju af gamla FH aftur og erum grimmari. Liðið er að ná úrslitum og vonandi heldur það áfram svo við getum gert atlögu að toppnum.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.