Enski boltinn

Enn eykst samkeppnin hjá Gylfa | James aftur til Ancelotti

Sindri Sverrisson skrifar
James Rodriguez er orðinn leikmaður Everton.
James Rodriguez er orðinn leikmaður Everton. mynd/@everton

Kólumbíski miðjumaðurinn James Rodriguez er orðinn leikmaður Everton en félagið festi kaup á þessum 29 ára gamla leikmanni fyrir 20 milljónir punda, frá Spánarmeisturum Real Madrid.

James fór til Real Madrid frá Monaco árið 2014 eftir að hafa fengið gullskóinn á HM í Brasilíu sama ár. Hann skrifaði undir samning við Everton til tveggja ára, með möguleika á eins árs framlengingu.

„Ég er mjög, mjög ánægður með að koma til þessa frábæra félagsa, með svo mikla sögu, og til stjóra sem þekkir mig mjög vel,“ sagði James, en Carlo Ancelotti stjóri Everton stýrði James einnig hjá Real Madrid og Bayern München, þar sem James var að láni 2017-19.

James kom við sögu í 14 leikjum hjá Real Madrid á síðustu leiktíð en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Everton hefur einnig fengið brasilíska miðjumanninn Allan frá Napoli í sumar, og samið við Watford um kaupverð vegna franska miðjumannsins Abdoulaye Doucoure. Samkeppnin hefur því aukist fyrir Gylfa Þór Sigurðsson sem sleppti landsleikjunum við England og Belgíu til að einbeita sér að sínu félagsliði, að sögn landsliðsþjálfarans Erik Hamrén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×