Enski boltinn

Jóhann Berg: Þessir landsleikir komu ekki á góðum tíma fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley í ensku úrvalsdeildinni.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Rich Linley

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum á móti Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni.

Jóhann Berg er að koma til baka eftir erfið meiðsli sem hafa strítt honum alveg síðan á HM í Rússlandi sumarið 2018. Nú vildi hann fá fullt undirbúningstímabil með Burnley og tók því þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér í landsleikina.

Jóhann Berg Guðmundsson ræddi þess ákvörðun og komandi tímabil með Burnley við heimasíðu félagsins. Hann segist vonast til þess að ákvörðun sín að fórna þessum landsleikjum muni hjálpa honum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

„Ég ákvað að það væri betra fyrir mig að vera hérna og ná fullu undirbúningstímabili,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

„Þessir landsleikir komu ekki á góðum tíma, sérstaklega ekki fyrir mig þar sem ég hef verið í vandræðum með meiðsli,“ sagði Jóhann Berg.

„Ég taldi það vera það besta í stöðunni fyrir mig að ná fullu undirbúningstímabili með Burnley, ná að spila nokkra leiki og komast í eins gott form og ég gat fyrir tímabilið,“ sagði Jóhann Berg.

„Ég er að leggja mikið á mig. Auðvitað verður maður þreyttur inn á milli en þannig er það bara. Ég horfi til framtíðar og ég sé hana vera bjarta fyrir mig,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

Jóhann Berg spilaði í síðustu fimm leikjum Burnley í sumarhluta síðasta tímabils og þá skoraði hann í leik á móti Tranmere um helgina en hann var spilaður fyrir luktum dyrum.

„Ég er að reyna að komast í mitt besta form. Við fengum nokkrar vikur í frí en ég hélt áfram að æfa. Ég fór heim til Íslands enda hafði það verið langur tími síðan ég hitti fjölskyldu og vini. Það var gott að slökkva á sér aðeins um stund,“ sagði Jóhann Berg.

„Núna er maður mættur aftur til vinnu. Það voru nokkrar mjög erfiðar hlaupaæfingar og svo fyrsti leikurinn. Það var gott að fá nokkrar mínútur á laugardaginn og það er alltaf gott að skora,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×