Erlent

Óttast að heimsókn Trump geri ástandið verra

Sylvía Hall skrifar
Mandela Barnes, aðstoðarríkisstjóri Wisconsin.
Mandela Barnes, aðstoðarríkisstjóri Wisconsin. Vísir/Getty

Mandela Barnes, aðstoðarríkisstjóri Wisconsin, telur óskynsamlegt að Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsæki borgina Kenosha í vikunni. Mótmæli hafa brotist út í borginni eftir að Jacob Blake var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumönnum.

Greint var frá því í dag að heimsókn forsetans væri á dagskrá næstkomandi þriðjudag. Forsetinn myndi hitta lögregluyfirvöld í bænum „og meta skaðann vegna nýlegra óeirða“ líkt og talsmaður Hvíta hússins komst að orði.

Barnes segist ekki vongóður um að heimsókn forsetans hafi góð áhrif á ástandið. Landsþing Repúblikanaflokksins hafi að mestu snúist um að skapa sundrung og heift í garð ástandsins í Kenosha, en landsþingið fór fram í vikunni sem leið. Þá hafi forsetinn ekki sýnt réttindabaráttu svartra stuðning.

„Svo ég veit ekki, miðað við fyrri fullyrðingar forsetans, hvort hann ætli sér að koma hingað til þess að vera hjálplegur. Við þurfum ekki á því að halda núna,“ sagði Barnes í samtali við CNN.

Fleiri hafa gagnrýnt fyrirhugaða heimsókn forsetans og hafa efasemdaraddir heyrst innan Demókrataflokksins. Meðal þeirra sem segja heimsóknina vafasama er Cornell William Brooks, prófseeor við Harvard Kennedy skólann og fyrrum formaður samtakanna NAACP sem hafa barist fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum.

Cornell William Brooks hefur verið ötull baráttumaður fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum. Hann stórefast um að heimsókn forsetans hafi jákvæð áhrif.Vísir/Getty

„Hann er bókstaflega að breyta Kenosha í pólitískan leikmun, með mótmælin sem bakgrunn,“ sagði Brooks í viðtali við CNN.

„Það sem ég held að muni gerast, hafandi skipulagt mörg mótmæli: Forsetinn mun gera slæma stöðu verri.“

Mótmælin hafa staðið yfir í tæpa viku, en tveir mótmælendur voru skotnir til bana af 17 ára dreng á þriðjudag sem var vopnaður hálfsjálfvirkum riffli. Sá hafði komið til borgarinnar ásamt öðrum vopnuðum hægri sinnuðum mönnum til að verja fyrirtæki frá mótmælendum, að þeirra eigin sögn.


Tengdar fréttir

Útskýringar lögreglu í Kenosha þykja þunnur þrettándi

Eftir þriggja daga þögn lögregluyfirvalda og gríðarleg mótmæli í Kenosha í Wisconsin-ríki Bandaríkjanna hefur lögreglan loks gefið út sína hlið á því hvernig það atvikaðist að Jacob Blake var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumanni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.