Íslenski boltinn

Spá því að Sauðárkrókur eignist loks lið í efstu deild í fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murielle Tiernan fagnar einu þriggja marka sinna gegn Keflavík.
Murielle Tiernan fagnar einu þriggja marka sinna gegn Keflavík. vísir/stöð 2 sport

Tindastóll situr á toppi Lengjudeildar kvenna þegar keppni þar er hálfnuð. Í síðasta leik sínum sigraði Tindastóll Keflavík á útivelli, 1-3. Bandaríski framherjinn Murielle Tiernan skoraði öll mörk Stólanna í leiknum. Tindastóll er með eins stigs forskot á Keflavík og á auk þess leik til góða.

Rætt var um Murielle og gott gengi Tindastóls í Lengjudeildinni í sumar í Pepsi Max mörkum kvenna í gær.

„Murielle er hörkuleikmaður og við vissum það alveg. Hún skoraði 24 mörk í þessari deild í fyrra og 24 mörk í 2. deild þar á undan,“ sagði Mist Rúnarsdóttir.

„En það sem er gaman að sjá með Tindastól er að þetta er ekki eins manns lið. Þetta er ekki bara Murielle. Þær hafa bætt sig mikið og þróað leik sinn. Fleiri leikmenn taka þátt í sóknarupplegginu. Og fyrst og fremst hefur Tindastólsliðið bætt varnarleikinn. Í fyrra fékk Tindastóll á sig 34 mörk en eru bara búnar að fá sig fimm mörk núna.“

Tindastóll og Keflavík eru í tveimur efstu sætum Lengjudeildarinnar eins og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segist hafa giskað á fyrir tímabilið. Hún bjóst þó frekar við því Keflvíkingar yrðu fyrir ofan Stólanna.

„Ég hélt að Keflavík myndi leiða þessa deild en Tindastóll færi upp með þeim því þær voru svo ótrúlega nálægt því í fyrra. Ég bjóst við Keflavík yrði langefst og Tindastóll myndi fylgja með smá samkeppni frá Haukum,“ sagði Bára.

Þær Mist spá því að Tindastóll leiki í Pepsi Max-deild kvenna á næsta ári og Sauðárkrókur eignist loks fótboltalið í efstu deild.

„Ég hef tilfinningu fyrir því. Það er ekki að ástæðulausu að þær eru þarna. Þær eru hrikalega flottar. Þetta er góð blanda. Þeir hafa haldið sterkum erlendum leikmönnum þrjú ár í röð. Murielle gæti spilað fyrir hvaða lið sem er í Pepsi Max-deildinni og hefur fengið tilboð þaðan,“ sagði Mist.

„Þeim líður vel þarna, hafa trú á verkefninu og af hverju ekki? Ég er á þessari lest og búin að vera lengi. Ég er mjög til í að sjá þær í Pepsi Max-deildinni,“ sagði Mist.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um Tindastól

Tengdar fréttir

Tindastóll vann toppslaginn

Einn leikur fór fram í Lengjudeild kvenna í dag. Tindastóll vann Keflavík á útivelli en þarna mættust topplið deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×