Íslenski boltinn

Segir að sóttkví KR-inga muni ekki hjálpa Valsmönnum á morgun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir Guðjónsson tók við Val í haust eftir tvö ár í Færeyjum.
Heimir Guðjónsson tók við Val í haust eftir tvö ár í Færeyjum. vísir/s2s

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, segir að sóttkvíin sem KR-ingar voru sendir í eftir ferðina til Skotlands muni ekki hjálpa Valsmönnum á morgun.

Valur og KR mætast í Vesturbænum á morgun. Leikurinn átti upphaflega að fara fram á laugardaginn en var frestað til morgundagsins vegna umræddar sóttkví.

„Það er mikill rígur á milli þessara liða. Það verður skemmtilegt að takast á við KR-ingana. Þeir eru með hörku gott lið,“ sagði Heimir.

„Við töpuðum fyrir þeim á Valsvellinum hérna síðast þannig að við þurfum að gera betur á morgun.“

KR gat ekki æft frá miðvikudegi til föstudags í síðustu viku eftir ferðina til Skotlands en Heimir segir þó að það muni ekki hjálpa Valsmönum.

„Það er enginn sem hjálpar okkur í þessum leika nema við sjálfir. KR-liðið er sterkt og þó að þeir hafi misst einhverja þrjá daga út þá held ég að það muni ekki hjálpa okkur neitt.“

„Auðvitað eru þetta ekki aðstæður sem maður vill endilega vera í en svona er staðan og maður þarf að gera það besta úr þessu. Vera jákvæður og eins og hefur komið fram, menn standi saman og svo er líka spurning hvenær þetta mót klárast. Maður veit það ekki. Það er alltaf verið að fresta einhverjum leikjum. Það er áskorun að takast á við þetta.“

Það er tilhlökkun í Heimi að spila inn í veturinn því þá styttist næsta undirbúningstímabil.

„Ég held að það verði gaman. Það kemur til með að stytta undirbúningstímabilið fyrir næsta tímabil sem er jákvætt.“

„Ég held að allir séu að reyna sitt besta til þess að reyna láta þetta ganga. Þegar menn eru að takast á við aðstæður sem menn hafa ekki lent í áður þá verða einhver mistök á leiðinni en heilt yfir þá held ég að menn séu að gera sitt besta.“

Klippa: Sportpakkinn - Heimir Guðjónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×