Erlent

Brasilísk þingkona ákærð fyrir að panta aftöku eiginmanns hennar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá brasilíska þinginu.
Frá brasilíska þinginu. EPA-EFE/Joédson Alves

Brasilíska þingkonan Flordelis de Souza hefur verið ákærð af lögregluyfirvöldum í Rio de Janeiro-ríki í Brasilíu fyrir að hafa pantað aftöku á eiginmanni hennar, sem skotinn var til bana á heimili þeirra á síðasta ári. Þingkonan nýtur friðhelgis sem þingmaður, en líklegt er að friðhelgin verði afnumin. Sex barna hennar, auk eins barnabarns, hafa einnig verið ákærð í tengslum við málið.

Anderson do Carmo, eiginmaður de Souza, var skotinn til bana í júní á síðasta ári. Samkvæmt frétt Reuters var hann skotinn alls 30 sinnum, en eiginkona hans hélt því fram að do Carmo hefði látist eftir að brotist hafi verið inn á heimili þeirra.

Alls eru ellefu ákærðir í tengslum við morðið en lögreglan gaf út níu handtökuskipanir og framkvæmdi fjórtán húsleitir í dag í tengslum við rannsókn málsins. De Souza hefur sem fyrr segir verið ákærð aðild sína að morðinu. Þó hefur engin handtökuskipun verið gefin út þar sem hún nýtur friðhelgis sem þingkona.

Lögregla hefur hins vegar sent ákæruna, auk upplýsinga um sönnunargögn í málinu sem benda til sektar hennar, til neðri deildar brasilíska þingsins, sem gæti svipt hana þingmennsku og þar með friðhelgi. Stjórnmálaflokkur hennar hefur þegar gefið út að de Souza verði rekin úr flokknum.

Í frétt BBC segir að meðferð do Carmo á fjármunum fjölskyldunnar sé talin líkleg ástæða aftökunnar. Ef marka má frétt BBC virðist fjölskyldan ekki hafa verið sérstaklega samrýnd þar sem BBC hefur eftir saksóknurum að de Souza hafi minnst sex sinnum reynt að eitra fyrir eiginmanni sínum, áður en hún fyrirskipaði börnum sínum að taka hann af lífi.

Saksóknarar segja að Flavio dos Santos Rodrigues, sonur de Souza, hafi verið sá sem myrti do Carmo. Í frétt BBC er einnig vísað í brasilíska fjölmiðla sem segja de Souza hafa lýst yfir sakleysi sínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×