Erlent

Tegnell á ekki von á annarri stórri bylgju

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Tegnell er sóttvarnalæknir Svíþjóðar.
Anders Tegnell er sóttvarnalæknir Svíþjóðar. EPA

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segist ekki eiga von á stórri seinni bylgju kórónuveirusmita í landinu þegar hausta tekur. Frekar eigi hann von á staðbundnum hópsmitum. 

Svíar hafa farið aðra leið en flest önnur ríki í baráttu sinni við heimsfaraldurinn þar sem fyrirtæki, veitingastaðir og flestir skólar hafa fengið að hafa opið og ekki hefur verið lögð áhersla á notkun andlitsgríma. 

Dauðsföll af völdum Covid-19 hafa verið mun fleiri í Svíþjóð en annars staðar á Norðurlöndum, en þó ekki hærri en í þeim Evrópuríkjum sem hafa orðið verst úti – þar á meðal Belgíu, Bretlandi og Spáni.

Smitum og dauðsföllum hefur fækkað mikið í Svíþjóð að undanförnu, en nú þegar samfélagið fer á fullt á ný að loknum sumarfríum hafa margir óttast að tilfellum kunni að fjölga á ný.

„Við teljum ekki að við munum fá þessa hefðbundnu seinni bylgju, líkt og í inflúensufaraldri þar sem maður fær aftur viðtækt smit í samfélaginu,“ sagði Tegnell í samtali við TV4.

„Þessi sjúkdómur virðist haga sér á annan máta. Smitið er óreglulegra, svo að líkur eru meiri á að við munum sjá – líkt og við sjáum víða í Evrópu – smit á ákveðnum stöðum, á vinnustaðnum og sambærilegu umhverfi, nú að hausti.“

Alls hafa nærri sex þúsund manns látið lífið af völdum Covid-19 í Svíþjóð. Hafa mikill fjöldi fólks látist á hjúkrunar- og öldrunarheimilum.

Tegnell segir að menn eigi alltaf að hafa varann á þegar kemur að þessum sjúkdómi þar sem hann valdi ítrekað meiri usla og sé mjög óútreiknanlegur. „En að við myndum aftur sjá viðlíka ástand og í vor – við sjáum það ekki gerast,“ segir Tegnell.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.