Íslenski boltinn

„Ekki séns“ að KR spili á mið­viku­dag losni þeir úr sótt­kví á þriðju­dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik Celtic og KR fyrr í vikunni.
Úr leik Celtic og KR fyrr í vikunni. vísir/getty

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, segir að liðið sé enn í sóttkví eftir ferðina til Skotlands er liðið spilaði leik í forkeppni Meistaradeildarinnar gegn Celtic.

KR-ingar hafa reynt að fá undanþágu vegna ferðar sinnar en í Skotlandi bjuggu þeir í hálfgerði búbblu. Fóru ekkert út af hótelinu nema til þess að æfa og spila leikinn sjálfan.

Þeir hafa reynt að fá undanþágu frá sóttkví þess vegna eða að minnsta kosti fengið að fara í svokallaða vinnusóttkví.

„Við erum enn bara fastir í okkar sóttkví. Liðið er ekkert farið að æfa eða fengið heimild til þess,“ sagði Páll. Hann segir að liðið sé enn ekki komið í svokallaða vinnusóttkví.

„Það þarf að sækja um þetta áður en við höfum verið að kanna hvaða leiðir við getum farið. Við erum búnir að setja okkur í samband við yfirvöld.“

„Eins og staðan er í dag þá byrjum við að æfa á þriðjudag,“ sagði Páll.

Leikur KR og Vals sem átti að fara fram um helgina hafði verið frestað til miðvikudagsins. Páll segir að ef KR byrjar að æfa á þriðjudag, fari sá ekki leikur fram á miðvikudag, eins og vonir stóðu til um.

„Ekki séns.“

KR fór í skimun við komuna til Íslands aðfaranótt 19. ágúst og þarf að fara í aðra skimun eftir helgi.

„Það er möguleiki á að komast í þessa vinnusóttkví eða flýta síðari skimun. Þá gæti liðið byrjað að æfa á sunnudaginn og þá er meiri möguleiki á að spila á miðvikudag,“ sagði Páll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×