Enski boltinn

Aftur stal Dortmund ungstirni fyrir framan nefið á United-mönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham hefur leikið yfir 30 leiki fyrir aðallið Birmingham þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára.
Jude Bellingham hefur leikið yfir 30 leiki fyrir aðallið Birmingham þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára. vísir/getty

Samkvæmt þýska blaðinu BILD hefur Borussia Dortmund náð samkomulagi við Birmingham City um kaup á enska ungstirninu Jude Bellingham.



Bellingham hefur verið fastamaður í liði Birmingham á þessu tímabili þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára. Hann verður ekki 17 ára fyrr en 29. júní næstkomandi.

Frammistaða miðjumannsins unga hefur vakið athygli stórliða, þ.á.m. Manchester United sem var sagt hafa boðið 20 milljónir punda í Bellingham.

Dortmund virðist hins vegar hafa unnið kapphlaupið um Bellingham. Talið er að félagið borgi rúmlega 30,5 milljónir punda fyrir strákinn sem myndi gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins.

Ef Bellingham endar hjá Dortmund verður þetta í annað sinn á nokkrum mánuðum sem félagið hefur betur í baráttu við United um eftirsóttan ungan leikmann.

Sem frægt er krækti Dortmund í norska markahrókinn Erling Braut Håland undir lok síðasta árs þrátt fyrir mikinn áhuga United.

Håland hefur byrjað frábærlega hjá Dortmund og skorað tólf mörk í fyrstu níu leikjum sínum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×