Enski boltinn

Eiður Smári sagði að sóknarleikur Man. City væri eins og kynlíf án fullnægingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardioal hugreystir Raheem Sterling eftir leik en til hægri er Eiður Smári Guðjohnsen.
Pep Guardioal hugreystir Raheem Sterling eftir leik en til hægri er Eiður Smári Guðjohnsen. Samsett/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen var mjög sérstaka myndlíkingu þegar hann var beðinn um að lýsa sóknarleik Manchester City liðsins eftir 2-0 tap á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eiður Smári var gestur Tómasar Þórs Þórðarsonar í þættinum Vellinum á Símanum sport þar sem farið var yfir frammistöðu ensku meistaranna á Old Trafford í leiknum.

Manchester City var miklu meira með boltann í leiknum og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum þar sem liðið náði engu að síður aðeins einu skoti á markið og það kom hjá Raheem Sterling eftir tíu mínútu.

„Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að segja það. Þetta virkar svolítið eins og kynlíf án þess að fá fullnægingu hvernig þeir spila,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen og hélt áfram:

„Það vantar svolítið það sem þetta snýst um sem er að búa til færin. Þeir þurfa að keyra meira á markið. Þetta er rosalega flott og þeir halda boltanum rosalega vel og hreyfa sig skemmtilega í kringum hvern annan. Það vantaði bara aðalatriðið,“ sagði Eiður Smári.

Eftir tapið á móti nágrönnum sínum í Manchester United er Manchester City búið að tapa sjö deildarleikjum á tímabilinu og er nú 25 stigum á eftir Liverpool.

Liðið hefur samt skorað 68 mörk í 28 leikjum eða fleiri mörk en öll önnur lið deildarinnar, þar á meðal Liverpool (66 mörk).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×