Erlent

Berni­e Sanders með stór­sigur í N­evada

Atli Ísleifsson skrifar
Bernie Sanders leiðir nú kapphlaupið um að verða forsetaefni Demókrataflokksins.
Bernie Sanders leiðir nú kapphlaupið um að verða forsetaefni Demókrataflokksins. Getty

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders virðist hafa unnið stórsigur í forkosningum Demókrataflokksins í Nevada sem fram fóru í gær.

Þegar búið er að telja um helming atkvæða virðist Sanders hafa fengið 47 prósent atkvæða. Varaforsetanum fyrrverandi, Joe Biden, virðist hafa gengið betur en í fyrstu tveimur forkosningum Demókrata, í Iowa og New Hampshire, og fengið um 19 prósent atkvæða nú.

Pete Buttigieg mælist svo með 15 prósent atkvæða og Elizabeth Warren 10 prósent. 36 landsfundarfulltrúum Nevada verður skipt milli þeirra frambjóðenda sem hlutu 15 prósent atkvæða eða fleiri í forkosningunum í gær.

Fyrir forkosningarnar í Nevada hafði Sanders hlotið 21 fulltrúa á landsþing Demókrata næsta sumar þar sem frambjóðandi flokksins verður valinn, en sá mun etja kappi við Donald Trump forseta í forsetakosningunum sem fram fara 3. nóvember. Alls þarf frambjóðandi að safna saman 1.990 fulltrúum til að hljóta útnefningu flokksins.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti.Getty

Nær til margra

Í frétt BBC kemur fram að talið sé að helstu ástæður fyrir góðu gengi Sanders sé að margir hafi greitt atkvæði utan kjörfundar, sér í lagi Bandaríkjamenn af rómöskum uppruna þar sem stuðningur við Sanders er hlutfallslega mikill. Þá hafi hann notið stuðnings stéttarfélaga og náð að höfða til fólks í öllum aldursflokkum, nema þá meðal þeirra sem eru 65 ára eða eldri.

Einnig hafi hann notið sérstaklega mikil stuðnings meðal kjósenda í yngsta aldursflokknum og meðal vel menntaðra, hvítra kvenna, en talið er að sá þjóðfélagshópur muni gegna lykilhlutverki þegar kemur að niðurstöðum kosninganna í nóvember.

Endurkoman sögð hefjast hér

Sanders var vitanlega ánægður með tölurnar þegar þær birtust og hrósaði fjölbreyttu stuðningsliði sínu þar sem saman væri komið fólk í öllum aldurshópum og kynþáttum. „Ameríska þjóðin hefur fengið sig fullsadda af forseta sem lýgur stanslaust,“ sagði Sanders.

Biden-liðar voru sömuleiðis ánæðir með niðurstöðuna og lýstu því yfir að „endurkoman hefjist hér“.

Trump forseti hrósaði Sanders í tísti fyrir sigurinn en kallaði hann jafnframt „Brjálaða Bernie“ (e. Crazy Bernie).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×