Erlent

Fyrsta tilfelli kórónuveiru staðfest í Brasilíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjötkveðjuhátíðarhöld standa sem hæst í Brasilíu þessa dagana og eru landsmenn á faraldsfæti vegna þeirra.
Kjötkveðjuhátíðarhöld standa sem hæst í Brasilíu þessa dagana og eru landsmenn á faraldsfæti vegna þeirra. Vísir/EPA

Heilbrigðisráðuneyti Brasilíu staðfesti fyrsta tilfelli kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum þar í dag. Rúmlega sextugur karlmaður sem var nýkominn heim frá Ítalíu er jafnframt sá fyrsti sem greinist með veiruna í Rómönsku Ameríku.

Yfirvöld segja að maðurinn sé við ágætisheilsu og að fylgst verði með honum í einangrun næstu tvær vikurnar. Maðurinn ferðaðist til Langbarðalands á norðanverðri Ítalíu fyrr í þessum mánuði en veiran hefur breiðst hratt út þar að undanförnu.

Fleiri en áttatíu þúsund manns hafa smitast af kórónuveirunni um allan heim en langflest tilfellin eru í Kína þar sem hún kom fyrst upp í desember. Hátt á þriðja þúsund manns hafa látið lífið af völdum veirunnar, afgerandi meirihluti þeirra í Kína.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að tímamót hafi orðið í gær þegar í fyrsta skipti var tilkynnt um fleiri ný smit utan Kína en innan þess.

Smitið í Brasilíu greinist í miðri kjötkveðjuhátíðinni þegar milljónir landsmanna ferðast innanlands til að taka þátt í hátíðarhöldum í stórborgum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Fylgst er með tuttugu manns til viðbótar vegna mögulegs kórónuveirusmits og þá hefur verið óskað eftir upplýsingum um alla farþega sem voru samferða manninum sem greindist með sjúkdóminn sem hún veldur til Brasilíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×