Erlent

Yfir 1.100 smitaðir af kórónu­veiru í Suður-Kóreu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sótthreinsandi efnum dreift í Seoul í Suður-Kóreu í dag.
Sótthreinsandi efnum dreift í Seoul í Suður-Kóreu í dag. Vísir/getty

169 tilfelli kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust í Suður-Kóreu í dag. Alls eru tilfellin í landinu orðin rúmlega 1100. Þá hefur bandarískur hermaður í Suður-Kóreu nú greinst með veiruna, sá fyrsti innan sinna raða í landinu.

Flest tilfellin sem greindust í dag, eða 134, eru í borginni Daegu í suðurhluta landsins. Hin tilfellin greindust öll í nærliggjandi bæjum.

Sjá einnig: Smituðum fjölgar í Evrópu og víðar

Þá greindist bandarískur hermaður í Suður-Kóreu með veiruna. AP-fréttastofan greinir frá því að hermaðurinn sé 23 ára og sé í heimasóttkví í herstöðinni Camp Carroll, steinsnar frá Daegu. Hann er sagður hafa farið víða í Carroll og einnig heimsótt Camp Walker, nærliggjandi herstöð, dagana í aðdraganda greiningarinnar.

Nær þrjátíu þúsund bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu. AP greinir frá því að kvikmyndahúsum, keiluhöllum og golfvelli hafi verið lokað á fjórum herstöðum Bandaríkjahers í landinu eftir að smit hermannsins var staðfest.

Þá greinir fréttaritar BBC í Suður-Kóreu frá því að embættismaður í Daegu, sem fundaði með forseta landsins, hafi greinst með kórónuveiru.

Eins og áður segir eru kórónuveirutilfellin í Suður-Kóreu nú orðin ríflega 1.100 og ellefu hafa látist af völdum veirunnar. Enn hafa langflest tilfelli veirunnar greinst í Kína en í dag hafa þar verið staðfest 406 ný tilfelli og 52 dauðsföll, öll í borginni Wuhan eða nágrenni hennar þar sem veiran á upptök sín.

Á sama tíma og dregið hefur úr fjölgun smitaðra í Kína fjölgar smituðum hratt annars staðar í heiminum. Bara í fyrradag og í gær hafa komið upp ný smit í Króatíu, Austurríki, Sviss og Alsír. Í heildina hefur verið staðfest að rúmlega 80 þúsund eru smitaðir í rúmlega 30 löndum.

Útbreiðsla veirunnar hefur valdið óróleika á fjármálamörkuðum og er fólk um allan heim að hætta við fyrirhuguð ferðalög. Sjö Íslendingar eru á meðal þúsund gesta sem eru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að kórónuveirusmit greindist á eyjunni. Ítalskur læknir greindist með veiruna aðfaranótt þriðjudags og nú hefur verið staðfest að kona hans smitaðist einnig.


Tengdar fréttir

„Gæti verið verri staður til að vera fastur á“

Sigvaldi Kaldalóns, fararstjóri á Tenerife, segir að líðan Íslendinganna sem séu í sóttkví sé góð og að fólk sé skilningsríkt. Unnið er að því að rannsaka alla gesti hótelsins.

Annað kórónuveirusmit staðfest á Tenerife

Tveir hafa nú greinst með kórónuveiruna á Tenerife en spænsk heilbrigðisyfirvöld hafa nú staðfest að eiginkona ítalska læknisins sem reyndist smitaður hafi einnig greinst með veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×