Erlent

Útlit fyrir snúna stjórnarmyndun á Írlandi eftir sigur þjóðernissinna

Kjartan Kjartansson skrifar
Mary Lou McDonald (f.m.) fagnar með félögum sínum í Sinn Féin.
Mary Lou McDonald (f.m.) fagnar með félögum sínum í Sinn Féin. Vísir/EPA

Sögulegur sigur írskra þjóðernissinna í þingkosningum á Írlandi í gær er talinn þýða að erfitt verði að mynda ríkisstjórn. Enginn flokkur náði hreinum meirihluta í kosningunum og flokkarnir tveir sem hafa skipst á að stjórna landinu hafa fram til þessa neita að vinna með þjóðernissinnum Sinn Féin.

Sinn Féin hlaut 24,5% atkvæða gegn 22,2% Fianna Fáil og 20,9% Fine Gael, miðhægriflokkanna sem hafa stýrt Írlandi um áratugaskeið, þegar búið er að telja fyrsta val. Írskir kjósendur raða frambjóðendum eftir fyrsta, öðru og þriðja vali. Talning á öðru og þriðja vali stendur enn yfir.

Ólíklegt er að Sinn Féin verði stærsti flokkurinn á Dáil, írska þinginu, þegar endanleg úrslit liggja fyrir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Flokkurinn stillti upp færri frambjóðendum en stóru flokkarnir. Ljóst er þó að flokkurinn bætir verulega við þá 23 þingmenn sem hann náði í kosningunum árið 2016.

Fianna Fáil og Fine Gael hafa fram að þessu útilokað ríkisstjórnarsamstarf við Sinn Féin. Flokkarnir hafa vísað til skattastefnu þjóðernisflokksins og sögulegra tengsla hans við Írska lýðveldisherinn (IRA).

Leo Varadkar, forsætisráðherra og leiðtogi Fine Gael, viðurkenndi að stjórnarmyndun yrði „snúin“ í gærkvöldi. Ljóst væri að hefðbundið tveggja flokka kerfi á Írlandi væri nú orðið að þriggja flokka kerfi.

MIchaél Martin, leiptogi Fianna Fáil, lokaði ekki alfarið á möguleikann á samstarfi við Sinn Féin eftir að úrslit lágu fyrir að taldi þó að flokkarnir ættu ekki saman að verulegu leyti.

Á meðan hrósaði Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, sigri og lýsti kosningunum sem „nokkurs konar byltingu í kjörkössunum“. Hún segist kanna möguleikann á að mynda ríkisstjórn án Fine Gael og Fianna Fáil.


Tengdar fréttir

Þrír stærstu flokkarnir hníf­jafnir

Þrír stærstu flokkarnir á Írlandi, Fine Gael, Fianna Fáil og Sinn Féin eru allir með um 22% fylgi í þingkosningum til neðri deildar samkvæmt útgönguspám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×